Costco má safna upplýsingum um viðskiptavini

Eins og Nútíminn greindi frá á dögunum safnar verslunarrisinn Costco upplýsingum um viðskiptavini sína. Costco heldur skrá um öll innkaup viðskiptavina sinna og nýtir meðal annars til að láta fólk vita þegar innkalla þarf vörur.

Costco vinnur að opnun verslunar hér á landi. Íslensk persónuverndarlög koma ekki í veg fyrir að þessum upplýsingum verði safnað. Viðskiptavinir Costco þurfa allir að vera í sérstökum viðskipta­klúbb Costco og gera má ráð fyrir að í skilmálum viðskiptaklúbbsins sé skýrt greint um upplýsingasöfnunina, sem er einmitt forsendan fyrir því að hún samræmist lögum.

Nútíminn hafði samband við Persónuvernd en mál er varða Costco hafa ekki komið til skoðunar þar. Lögfræðingur hjá stofnuninni benti á eftirfarandi:

Öll vinnsla persónuupplýsinga þarf að styðjast við einhverja af þeim heimildum sem taldar eru upp í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í því tilviki sem hér um ræðir kæmi helst til skoðunar að vinnsla grundvallist á samþykki hins skráða, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr., vinnsla sé nauðsynleg til að efna samning, sbr. 2. tölul. sömu greinar eða að vinnsla sé nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til geti gætt lögmætra hagsmuna sinna, sbr. 7. tölul. sömu greinar. Slíkt samþykki væri t.d. hægt að veita með því að samþykkja tiltekna skilmála við inngöngu í Costco klúbbinn eða annars konar vildarklúbb verslunar.

Lögmaður sem Nútíminn hafði samband við í kjölfar svars persónuverndar túlkar svarið þannig að Costco þurfi að fá ótvírætt samþykki viðkomandi viðskiptavinar og þá sé upplýsingasöfnunin í lagi.

Auglýsing

læk

Instagram