„Ég skil ekki hvernig við getum búið í samfélagi þar sem það er flott að fara á netið og drulla yfir einhvern“

„Ef ég væri að ráða manneskju í vinnu og færi inn á samfélagsmiðlana hennar og ég sæi að hún væri þar í tíma og ótíma að drulla yfir fólk þá eru það fyrir mér bara tvö orð: Óunnin sjálfsvinna,“ segir Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni.

Hann lýsir í viðtalinu af einlægni þeirri upplifun þegar hann fór frá hápunkti ferils síns niður í að missa bæði mannorð sitt og lífsviðurværi á örfáum örlagaríkum dögum í maí 2021. Sölvi fékk það hlutskipti að verða fyrstur í langri röð manna sem fengu að kenna á stjórnlausri bylgju sem reið yfir samfélagið þegar aðgerðarsinnar náðu að sannfæra þjóðina um að réttarríkið væri úrelt fyrirbæri og að taka þyrfti aftur upp aðferðir bannfæringa og útskúfana í anda myrkra miðalda.

Þá segir Sölvi frá því hvernig þessi lífreynsla fékk hann til að kafa inn á við, iðka sjálfsrannsókn og nýta þessa upplifun til að verða að betri manni.

Rantið og árásirnar smitast í uppeldið

„Ég skil ekki alveg hvernig við getum búið í samfélagi þar sem það er flott hjá fólki að fara á netið og drulla yfir einhvern. Ef einhver gerir það í kringum mig þá segi ég við viðkomandi að hann þurfi aðeins að fara skoða sig inn á við. Það hljómar eins og þú sért ekki með gott fólk í kringum þig. Ef þú ert faðir eða móðir – ég held að það muni smitast í uppeldið þitt ef þú ert í þessari orku allan daginn að vera ranta og ráðast á fólk allan daginn, það er ekki gott hlutskipti,“ segir Sölvi sem vildi alls ekki nota fórnarlambaspilið.

„Ég man á einum tímapunkti þegar ég var kominn dálítið langt með bókina og var mikið að segja við ritstjórann minn og útgefanda að fólk hefur ekki áhuga á að heyra enn eina fórnarlambasöguna en á einhverjum tímapunkti segja þeir við mig að ég geti ekki afneitað því að ég hafi verið fórnarlamb þegar það kemur að ákveðnum hlutum og ég verði að leyfa mér að vera það. Ég held að ég hafi snemma í þessu ferli lokað á það og eins og ég sagði áðan þá er ég ekki að reikna með afsökunarbeiðni frá neinum. Ég veit ekki ef einhver myndi koma og biðja mig afsökunar þá færi ég kannski bara að gráta – ég veit það ekki. Það er örugglega einhver partur innra með mér…það var ekkert lítið sem var tekið af mér á þessum tíma.“

Breyttur raunveruleiki

„Ég ákvað á einhverjum tímapunkti að fara dálítið mikið í þann gír að hugsa hvað ég ætlaði að gera við stöðuna eins og hún er – það er dálítið öfug æðruleysisbæn að vera velta mér upp úr einhverju sem er búið og gert. Veruleikinn minn er breyttur og verður alltaf breyttur, hvernig get ég unnið með hann eins og hann er,“ segir Sölvi en þá bendir Frosti á þá staðreynd að hver sem er getur kært hvern sem er fyrir hvað sem er.

„Eins og þú segir frá í bókinni þá getur hver sem er gengið inn á lögreglustöð og kært hvern sem er. Ég gæti kært Guðna forseta á morgun fyrir að hafa stolið hestinum mínum. Að það sé gert blaðamál úr því áður en það er rannsakað og ákvarðað hvort það sé einhver fótur fyrir því er ótrúlega óábyrgt,“ segir Frosti.

„Nú get ég ekki fullyrt en það er stundum bið eftir tíma hjá lögreglunni en mér finnst mjög líklegt að það hafi verið búið að skrifa þessar fréttir um þessar kærur á mig áður en það var búið að kæra. Það var engin rannsóknarvinna búin að eiga sér stað, engin, núll. Þessar fréttir voru farnar í loftið áður en ég hafði hugmynd um hver var að kæra mig eða fyrir hvað,“ segir Sölvi í þessu áhrifaríka viðtali sem þú mátt ekki láta framhjá þér fara.

Hægt er að sjá og heyra viðtalið í fullri lengd inni á hlaðvarpssíðu Brotkasts en Nútíminn birtir hér fyrir neðan brot úr viðtalinu.

Auglýsing

læk

Instagram