Foreldrar geri viðeigandi ráðstafanir vegna tilvika þar sem veist hefur verið að ungum stúlkum í Garðabæ

Foreldrar eru hvattir til þess að ræða við börnin sín og gera viðeigandi ráðstafanir vegna tilvika þar sem veist hefur verið að ungum stúlkum í Garðabæ undanfarna daga. Málin eru litin alvarlegum augum og lögreglan rannsakar þau. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Garðabæ.

Síðustu tvær vikur hefur verið ráðist á fjórar stúlkur í Garðabæ og lögreglunni bárust einnig tvær tilkynningar um að veist hefði verið að stúlkum á milli klukkan 16 og 18 í gær.

Áhyggjur hafa vaknað varðandi öryggi skólabarna í Garðabæ á leið heim úr skóla eða í frístundastarf og hefur foreldrum verið bent á að ræða við börn sín og gera viðeigandi ráðstafanir.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að starfsmenn Garðabæjar hafi ekki upplýsingar um málin umfram það sem haft hefur verið eftir lögreglu í fjölmiðlum.

Lögreglan tilkynnti á Facebook-síðu sinni í gær að eftirlit í Garðabæ hafi verið aukið.

Hún biður fólk sem telur sig hafa upplýsingar um þessi atvik að hafa samband í síma 444-1000, senda tölvupóst á abending@lrh.is  eða senda einkaskilaboð á Facebook-síðu lögreglunnar

Auglýsing

læk

Instagram