Frosti biður kollega sinn afsökunar á vinnustaðarhrekk sem hafði í för með sér hræðilegar afleiðingar

Útvarpsmaðurinn Frosti Logason kom kollega sínum, Helga Má Bjarnasyni, í stórkostleg vandræði á dögunum þegar Helgi Már gleymdi að skrá sig út af Facebook eftir að hafa stýrt útvarpsþættinum Party Zone á X977 á laugardagskvöld.

Frosti mætti til vinnu á mánudag og sá að Helgi var skráður inn. Hann fann því frétt af hryðjuverki í Evrópu, birti á Facebook-síðu Helga og skrifaði eftirfarandi orð:

Nú er nóg komið! ég held að nú sé runninn upp sú stund þegar leiðtogar ættu að koma sér saman um þá ákvörðun að vísa öllum múslimum úr álfunni og skella svo í lás á eftir. Þetta getur ekki gengið áfram svona.

Frosti viðurkennir að hafa farið rækilega fram úr sjálfum mér. „Mér fannst þetta náttúrulega alveg hrikalega fyndið og mig óraði ekki fyrir þeirri vitleysu sem ætti í kjölfarið eftir að fylgja,“ sagði hann í Harmageddon í morgun.

„Fullt af fólki réðst gegn Helga Má — algjörlega grandarlaus og þvílíkur sómapiltur. Algjör ljúflingur og myndi aldrei segja neitt þessu líkt. Ég fullyrði það. Ég er búinn að þekkja lengi.“

Helgi Már var ekki við tölvu og staðan fékk því að standa í dágóða stund. „Það var allt of mikið af fólki sem hélt að Helgi væri að meina þetta,“ segir Frosti sem bjóst aldrei við að fólk myndi trúa þessu.

„Ég vil biðja Helga Má, fjölskyldu hans, vinnufélaga og alla sem að málinu koma afsökunar á þessu misheppnaða gríni mínu,“ sagði Frosti og bætti við að hann meinti það frá dýpstu hjartarótum.

Hlustaðu á söguna á bakvið grínið og afsökunarbeiðni Frosta hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Instagram