Fyrsta kvikmynd Elfars Aðalsteins fær glimrandi dóma: „Við erum ótrúlega glöð og þakklát“

Kvikmyndin End of Sentence, í leikstjórn Elfars Aðalsteins, fær afar jákvæða umfjöllun í leiðandi kvikmyndafagtímaritum á borð við Hollywood Reporter og Screen Daily, sem valdi hana eina af fimm mest spennandi kvikmyndunum sem sýndar voru á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Edinborg (EIFF) sem lauk um helgina.

 

Frammistaða aðalleikaranna John Hawkes og Logan Lerman, er einnig lofuð í dómunum. Hawkes er reynslumikill leikari og var m.a. tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í myndinni Winter’s Bones og Lerman er hvað þekktastur fyrir hlutverk sinn í myndinni The Perks of Being a Wallflower. Þá fer Ólafur Darri Ólafsson með lítið hlutverk í End of Sentence.

Myndin er fyrsta kvikmynd Elfars í fullri lengd. „Við erum ótrúlega glöð og þakklát fyrir þessar frábæru viðtökur og hvað áhorfendur í Edinborg tengdu sterkt við söguna. Það er auðvitað aðalmálið,“ sagði leikstjórinn að lokinni hátíðinni. „Nú er afkvæmið farið að heiman og flakkar í framhaldi vonandi eitthvað um heiminn. Það kemur í ljós á næstu vikum hvert hún fer næst en þessi viðbrögð hafa mjög jákvæð áhrif á ferðalagið framundan.“

Kvikmyndin er framleidd af Sigurjóni Sighvatssyni, Elfari Aðalsteins og David Collins en Kvikmyndamiðstöð Íslands veitti verkefninu eftirvinnslustyrk og fór sú vinna alfarið fram á Íslandi. Þannig er myndin samframleiðsluverkefni Íslands, Bandaríkjanna og Írlands en hún var að mestu tekin upp á Írlandi.

Fjölmargir Íslendingar koma að gerð myndinnar s.s. Eva María Daníels og Guðrún Edda Þórhannesdóttir meðframleiðandur, Karl Óskarsson tökumaður, klippararnir Valdís Óskarsdóttir og Kristján Loðmfjörð, Pétur Þór Benediktsson tónskáld, Kjartan Kjartansson hljóðmaður og Eggert Baldvinsson tæknilegur stjórnandi og meðframleiðandi. 

Í dómunum kemur fram að Elfar leikstýri myndinni af styrk og yfirvegun, sem sé eftirtektavert fyrir fyrstu kvikmynd í fullri lengd, og er frásagnarstíl hans líkt við stíl Alexander Payne sem leikstýrði m.a. Sideways. Einnig fá leikstjóri og tökumaður hrós fyrir að hið stórbrotna, írska landslag fái að njóta sín í myndinni án allrar væmni.

Dómana má sjá í heild sinni á HollywoodReporter og ScreenDaily.

Auglýsing

læk

Instagram