Gagnrýna fjarveru kvenna í umfjöllun um nýliða í hipp hoppi: „Hvað áttum við að gera, búa þær til?“

Fjarvera kvenna í úttekt um hipp hopp-senuna á Íslandi í nýjasta tölublaði Grapevine er harðlega gagnrýnd á Twitter. Rappararnir í hljómsveitinni Úlfur Úlfur segja að það sé sick að horfa gjörsamlega framhjá framlagi kvenna til senunnar. Höfundur greinarinnar segir að um misskilning sé að ræða; greinin fjalli aðeins um nýja listamenn undir tvítugu og að hún hafi hreinlega ekki fundið neinar konur á þeim aldri sem eru að gera hipp hopp.

Í umfjöllun Grapevine sem kom út í dag fjallar Hannah Jane Cohen um nýliða íslensku hipp hopp-senunnar undir fyrirsögninni: „The Front Line“ eða „Í framlínunni“. Rappararnir sem fjallað er um í greininni eru Birnir, JóiPé & Króli, Landaboi$, Dadykewl, Hrnnr & Smjörvi og Icy G & Hlandri. Loks er Aron Can á forsíðu blaðsins.

Á Twitter hefur málið verið talsvert rætt í dag og á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt skortinn á konum í umfjölluninni eru Salka Sól og rappsveitin Úlfur Úlfur.

Blaðamaðurinn Hannah Jane Cohen segir í samtali við Nútímann að Grapevine hafi þrisvar á undanförnum misserum fjallað með um hipp hopp og að síðast hafi konur til að mynda verið í meirihluta þeirra sem rætt var við.

Hannah telur að gagnrýnin sé byggð á misskilningi enda hafi í þetta skipti aðeins verið fjallað um listamenn undir tvítugu sem eru að springa út. Hún segist hreinlega ekki hafi fundið konur á þeim aldri sem eru virkar í senunni. „Hvað áttum við að gera, búa þær til?“ spyr hún.

Hún segist vera femínisti og afar meðvituð um að útiloka ekki konur í umfjöllun sinni. „Ég leitaði að stelpum á þessum aldri sem eru að gera þessa tegund tónlistar en ég bara fann engar,“ segir Hannah og bætir við að hún hafi augljóslega ekki viljað hafa reyndari listamenn á borð við rappsveitina Cyber, Reykjavíkurdætur eða Alviu Islandiu í umfjöllun um nýliða. „Það hefði gert lítið úr þeim.“

Auglýsing

læk

Instagram