Guðni Th. grínaði í Steingrími sem vildi mynd af sér með forsetanum, sendi honum föndraða mynd

Ráðgjafinn Steingrímur Sævarr Ólafsson furðaði sig á því á dögunum af hverju hann væri einn af fáum Íslendingum sem væri ekki búinn að fá mynd af sér með Guðna Th. Jóhannessyni, nýkjörnum forseta Íslands.

Steingrímur birti þessar vangaveltur á Facebook, í meira gríni en alvöru: „Sýnist í fljótu bragði að ég sé eini Íslendingurinn sem ekki hefur fengið mynd af sér með forseta Íslands,“ skrifaði hann og bætti við: „Þekki ég einhvern sem er góður í Photoshop?“

Þegar Steingrímur kom heim úr vinnunni í gær beið hans umslag merkt skrifstofu forseta Íslands og inni í því var þessi mynd hér:

„Með kærri kveðju, Guðni Th. Jóhannesson“ – stórkostlegt!

Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Steingrímur að fátt hafi fengið hann til að hlæja jafn hjartanlega og þessi sending. „Illa klippt myndin af mér inn á áritaða mynd af Forseta Íslands. 10 rokkstig fyrir gott grín – og á Bessastaði Guðni Th. Jóhannesson,“ skrifar hann og bætir við:

„Sem fær mig til að hugsa … Er ég eini Íslendingurinn sem ekki er kominn með Fálkaorðuna?“

Auglýsing

læk

Instagram