today-is-a-good-day

Hætt við kaup Icelandair á Wow: „Niðurstaðan er vissulega vonbrigði“

Ekkert verður að kaupum Icelandair Group á Wow air en hætt hefur verið við kaupsamning sem undirritaður var í upphafi mánaðar. Þetta er sameiginleg niðurstaða beggja aðila. Frá þessu er greint á Vísi í dag.

Í vikunni var greint frá því í fjölmiðlum að ólíklegt mætti teljast að allir fyrirvarar í kaupsamningi Icelandair á Wow yrðu uppfylltir. Í fréttatilkynningu frá Icelandair í dag segir að staðan sé óbreytt hvað þetta varðar og það sé því ólíklegt að stjórn Icelandair Group geti mælt með því að samþykkja kaupsamninginn.

Sjá einnig: Villi Vandræðaskáld syngur um samruna Icelandair og WOW: „Ísland er fokking eyja“

Í ljósi stöðunnar er það því sameiginleg niðurstaða að falla frá kaupsamningnum sem undirritaður var 5. nóvember.

Bogi Nils Bogason, starfani forstjóri Icelandair Group, segir í tilkynningunni að niðurstaðan sé vonbrigði og að stjórn og stjórnendur beggja félaga hafi unnið að þessu verkefni af heilum hug. Hann þakkar stjórnendum Wow fyrir gott samstarf í verkefninu og óskar þeim alls hins besta.

Skúli Mogensen segir að það hafi verið ljóst í upphafi að þarna hafi verið á ferð metnaðarfullt verkefni að klára alla fyrirvara á svo skömmum tíma. Hann þakkar fyrir gott samstarf og óskar sömuleiðis stjórnendum og starfsfólki Icelandair Group alls hins besta.

WOW Air hefur boðað til starfsmannafundar í höfuðstöðvum flugfélagsins í Borgartúni klukkan 10. 

Auglýsing

læk

Instagram