Flugfreyjur felldu kjarasamning

Félagar Flugfreyjusambands Íslands felldu í dag kjarasamning við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair. Þetta kemur fram á vef rúv

Atkvæðagreiðslunni lauk klukkan tólf í dag en hún hafði staðið yfir síðan á fimmtudag. Af hverjum fjórum greiddu þrír atkvæði gegn samningnum.

Kjörsókn var 85,3 prósent. 26,46 prósent greiddu atkvæði með kjarasamningi en 72,65 prósent gegn honum. 0,89 prósent skiluðu auðu.

„Það að nýr kjarasamningur hafi verið felldur með afgerandi hætti sýnir vel að félagsmenn telja of langt gengið í þeim hagræðingarkröfum sem fólust í nýjum samningi. Stjórn og samninganefnd mun nú fara yfir málið og mæta á fund ríkissáttasemjara þegar til hans verður boðað með ríkan samningsvilja líkt og áður,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn og samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands.

Í yfirlýsingu frá Icelandair segir:

„Nú verðum við að skoða þá möguleika sem eru í stöðunni og munum gera það hratt og örugglega. Það hvílir mikil ábyrgð á okkur sem stjórna félaginu að tryggja rekstrargrundvöll þess til framtíðar og þar með verðmæti fyrir þjóðarbúið og mikilvæg störf, þar á meðal störf flugfreyja og flugþjóna.“

Að sögn beggja félaga munu samingaviðræður hefjast sem fyrst.

Auglýsing

læk

Instagram