Heiða Rún hættir í sjónvarpsþáttunum Poldark

Heiða Rún Sigurðardóttir, eða Heida Reed eins og hún er þekkt erlendis, er hætt í þáttunum vinsælu Poldark en hún lék Elizabeth Warleggan, eitt af aðalhlutverkum þáttarins. RÚV greinir frá.

Rétt er að vara við spennuspillum í greininni sem geta spillt fyrir þeim sem fylgjast með þáttunum. 

………….

Seinasta viðvörun!

Lokaþáttur fjórðu seríu sjónvarpsþáttanna Poldark var sýndur í gær í Bretlandi en þar dó persóna Heiðu Rúnar, Elizabeth Warleggan. Ítarlega er fjallað um andlát persónunnar í hlekkjum fréttarinnar og því ástæða til að vara lesendur við.

Þó að áhorfendur þáttanna séu í áfalli segist Heiða í samtali við Metro hafa vitað af örlögum Elizabethar í langan tíma. „Ég vissi frá upphafi hvað væri að fara að gerast, bæði vegna bókanna og hvernig Debbie Horsfield hafði ákveðið að skrifa þáttaraðirnar.“

Hún segir það hafa verið tilfinningaríkt að taka upp lokasenurnar bæði vegna þess að hún hafi verið að yfirgefa þættina og vegna þess að hún hafi verið að kveðja persónu sína.

Í samtali við The Sun segist Heiða afskaplega þakklát fyrir að hafa verið hluti af ævintýrinu sem Poldark er. Hún segist sakna allra mikið nema lífstykkisins sem hún hafi þurft að klæðast í þáttunum. „Ég mun ekki sakna þess.“

Heiða þakkar að lokum aðdáendum fyrir stuðninginn og fyrir að horfa á þættina. „Án ykkar værum við ekki hér í dag.“

Aidan Turner, sem leikur sjálfan Ross Poldark, segir í samtali við Digital Spy það hafa verið erfitt að leika á móti Heiðu í lokaatriðinu þar sem persóna hennar deyr. Áfall sé að missa hana úr þáttunum og erfitt sé að horfa á eftir leikara sem hafi verið í þáttunum frá upphafi.

Hann segir skrítið að missa náin vin úr þáttunum. „Þetta er mjög sérkennileg tilfinning.“

Auglýsing

læk

Instagram