Helgi Kolviðs hættur í þjálfarateymi karlalandsliðsins í fótbolta

Helgi Kolviðsson er hættur í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu en Helgi var aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar síðustu tvö ár. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Helgi var ráðinn aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar eftir að Lars Lagerbäck hætti sem sumarið 2016.

„Minn samn­ing­ur rann út. Ljóst er að ég er ekki inni í mynd­inni í nýja þjálf­arat­eym­inu,“ sagði Helgi í samtali við Morgunblaðið og bætir við að nýr þjálfari gæti viljað búa til sitt eigið teymi þegar hann tekur við landsliðinu.

Helgi segist sjálfur hafa gert það einu sinni þegar hann tók við nýju félagsliði. „Þá tók ég mitt teymi með mér og þá þurfti aðstoðarþjálfari að víkja. Ég hef skilning á þessu.“

RÚV greinir frá því að KSÍ leiti nú að nýjum landsliðsþjálfara en hávær umræða hefur verið um að Svíinn Erik Hamrén taki við liðinu.

Auglýsing

læk

Instagram