Hetjan úr hverfinu – nýjasta plata Herra Hnetusmjörs kom út í dag

Herra Hnetusmjör, 203 Stjórinn, og nú, Hetjan úr hverfinu, gaf í dag út nýja plötu sem að ber einmitt heitið Hetjan úr hverfinu. Herra Hnetusmjör segir að nafnið komi til af því að hann hafi farið að finna fyrir því að ungir krakkar úr 203 Kópavogi byrjuðu að líta á hann sem fyrirmynd í rappinu, hafa samband við hann, og heilsa honum út á götu. Þeir eru ekki margir, rappararnir úr 203 segir Herra og hann tekur því glaður á sig hlutverk hetjunnar úr hverfinu.

Platan er unnin með ýmsum þekktum einstaklingum sem að Herra hefur unnið með áður og má þar nefna Þormóð Eiríksson, og tónlistarmanninn Huginn. Einnig komu að plötunni einstaklingar sem að Herra hefur ekki unnið með áður, en Ingi Bauer vann með honum lagið Upp til hópa, sem að hefur nú þegar komið út og hefur fengið yfir milljón spilanir á Spotify, auk þess sem að Ásgeir Orri úr StopWaitGo kom að tveimur lögum. Þessu til viðbótar kemur fram á laginu Nýr ís, rapparinn Euro Gotit, sem að hefur verið að gera það gott í rappsenunni í Atlanta.

Herra Hnetusmjör segist hafa séð fjallað um rapparann á Instagram, og ákveðið að hafa samband: „Ég sendi bara á hann og sagði honum að ég væri einn af stærstu rappörunum á Íslandi og spurði hvort að hann væri til í að koma fram á plötunni minni og hann var alveg til í það.“

Það má því með sanni segja að Herra sé að færa út kvíarnar, en undanfarna mánuði hefur vörumerkið Herra Hnetusmjör verið áberandi á hillum matvöruverslana á hnetusmjörskrukkum frá H-Berg, en þar að auki eignaðist rapparinn eiginn hamborgara á Hamborgarafabrikkunni.

Á plötunni segist Herra halda áfram að fjalla um þá hluti sem að eru að gerast í hans lífi, en jafnframt prufa sig áfram með nýja hluti: „Ég er aðeins meira að syngja á þessari plötu, og í einu lagi, Vangaveltur, er ég í fyrsta sinn að fjalla um að efast um sjálfan mig.“ Í laginu sýnir Herra á sér nýja hlið, og syngur um efasemdir sem að plaga hann.

Sjá einnig: Herra Hnetusmjör lét flúra á sig æðruleysisbænina: „Er edrú og finnst nett að vera með bæn á bakinu“

Herra segist ekki vera útgáfutónleika á dagskránni, að minnsta kosti ekki fyrr en eftir fyrstu viðbrögð við plötunni. Annars er Herra ekkert að slaka á þessa dagana, hann mun koma fram á Iceland Airwaves í Nóvember, auk þess að halda áfram að stækka vörumerki sitt. Við spurningu blaðamanns um hvort að eitthvað nýtt sé á döfinni segir Herra: „ Ekkert sem að ég vil segja frá alveg strax, en bara fylgist með.“

Það verðu spennandi að sjá upp á hverju rapparinn tekur næst, en í millitíðinni geta aðdáendur hlustað á plötuna á flestum helstu tónlistarveitum, eða í gegnum Spotify hér að neðan.

 

 

Auglýsing

læk

Instagram