Hillary Clinton býður sig ekki aftur fram

Hillary Clinton hefur lýst því yfir að hún ætli ekki að taka þátt í forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2020. „Ég ætla ekki í framboð, en ég ætla að halda áfram að vinna og tala og standa fyrir því sem ég trúi á,“ sagði Clinton í viðtali við News 12 sjónvarsstöðina í New York. BBC greinir frá þessu.

Clinton var fulltrúi Demókrataflokksins og aðalkeppinautur Donalds Trump í forsetakosningunum 2016. Flestir bjuggust við sigri hennar og að hún yrði fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna, en Trump kom öllum á óvart og vann kosningarnar. Hún segist efast um að hún ætli nokkurn tímann aftur í einhvers konar framboð.

Um þessar mundir er kosningabaráttan fyrir næstu forsetakosningar að hefjast og fjölmargir hafa lýst yfir áhuga á að vera forsetaefni Demókrataflokksins og fella Trump, þar á meðal helsti keppinautur Clinton um tilnefningu Demókrataflokksins í síðustu kosningum, Bernie Sanders. Hann er þekkt nafn sem nýtur mikils stuðnings innan grasrótar flokksins og er því strax talinn sigurstranglegur í baráttunni um að verða forsetaefni Demókrataflokks.

En hann er alls ekki sá eini sem kemur til greina og það verður að öllum líkindum mikil samkeppni um tilnefninguna. Það er því enn alveg óvíst hver verður fulltrúi Demókrataflokksins í næstu forsetakosningum.

Auglýsing

læk

Instagram