Hjálmar rekinn vegna trúnaðarbrests segir stjórnin

Hjálmar Jónsson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands. Hann hefur starfað í rúm tuttugu ár hjá félaginu, sem framkvæmdastjóri frá árinu 2003, en einnig sem formaður á árunum 2010-2021. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Blaðamannafélagi Íslands. Þar segir enn fremur:

„Á undanförnum misserum hafa áherslur í starfsemi félagsins breyst og hefur stjórn unnið að endurskipulagningu á skrifstofu BÍ sem endurspeglar þessar breytingar. Hluti af fyrirhuguðum breytingum er ráðning nýs framkvæmdastjóra. Samhliða henni vildi stjórn bjóða núverandi framkvæmdastjóra nýtt starf innan félagsins. Markmið þess var að fá inn nýtt starfsfólk, með reynslu og þekkingu sem nýttist í þau verkefni sem stjórn hefur ákveðið að ráðast í. Um leið að tryggja að þekking og reynsla fráfarandi framkvæmdastjóra nýttist félagsmönnum, sem og stjórn og nýjum framkvæmdastjóra, þannig að tryggja mætti sem best vandaða yfirfærslu verkefna.

Í því ferli hefur hins vegar orðið trúnaðarbrestur á milli stjórnar og framkvæmdastjóra sem stjórn telur að ekki verði leyst úr. Var það niðurstaða stjórnar að ekki væri lengra komist í samstarfi stjórnar og fráfarandi framkvæmdastjóra og að nauðsynlegt væri að hann hætti störfum svo tryggja mætti viðunandi starfsskilyrði á skrifstofu félagsins. Þá geti stjórn ekki unnið áfram þau verkefni sem hún hefur sett sér í starfsáætlun við óbreyttar aðstæður.

Stjórn BÍ þakkar Hjálmari fyrir framlag hans í þágu blaðamennsku á Íslandi og baráttu hans fyrir kjara- og réttindamálum blaðamanna. Stjórn mun á næstu dögum auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra félagsins, og mun formaður gegna fullu starfi á skrifstofu félagsins þar til gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra og hann tekinn til starfa.“

Auglýsing

læk

Instagram