Hlustendur Útvarps Sögu mjög jákvæðir fyrir því að fá samkynhneigt par á Bessastaði

Hlustendur Útvarps Sögu eru vægast sagt mjög jákvæðir fyrir því að fá samkynhneigt par á Bessastaði, ef marka má könnun á vefsíðu útvarpsstöðvarinnar. Þúsundir hafa tekið þátt í könnuninni sem var sett af stað í dag.

Könnunin var sett af stað í kjölfar fréttar Vísis í morgun þar sem greint var frá niðurstöðum könnunar Gallup um afstöðu fólks til forsetaframboðs dr. Baldurs Þórhallssonar.

Spurt var: „Ert þú já­kvæð(ur) eða nei­kvæð(ur) gagn­vart því að dr. Bald­ur Þór­halls­son, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði verði næsti for­seti Íslands og setj­ist ásamt maka sín­um Fel­ix Bergs­syni á Bessastaði?“ 51,4 prósent lýsti sig jákvæðan gagnvart hugmyndinni.

Baldur lýsti í kjölfarið yfir á Facebook-síðu sinni að hann væri ekki á leiðinni í framboð. „Við endurtökum þakkir okkar fyrir hlý orð og hvatningu og hvetjum kraftmikla einstaklinga til að stíga fram og bjóða sig fram til embættisins,“ sagði hann.

Könnun Útvarps Sögu hefur verið í gangi í allan dag og atkvæðin eru á sjötta þúsund. Afgerandi meirihluti hlustenda, um 86 prósent, er hlynntur hugmyndinni um samkynhneigt par á Bessastaði á meðan aðeins tæplega níu prósent er á móti.

Fimm prósent hlustenda Útvarps Sögu er á móti hugmyndinni, þegar þetta er skrifað.

Auglýsing

læk

Instagram