Hugleikur Dagsson gerði lista yfir hluti sem hann þolir ekki og hluti sem hann elskar

Skopmyndateiknarinn og grínistinn, Hugleikur Dagsson hefur birt tvo afar áhugaverða lista á Facebook-síðu sinni. Listarnir eru mjög ólíkir og snúa annars vegar að því sem hann elskar og hins vegar að því sem hann þolir ekki. Sjáðu báða listana hér að neðan.

Hugleikur birti fyrst listann yfir hluti sem hann þolir ekki. Þar kennir ýmissa grasa. Meðal þess sem Hugleikur þolir ekki er þegar fólk sýnir honum Youtube-myndbönd óumbeðið eða þegar fólk vill tala um alheiminn, tímann og heimspeki.

Listinn yfir hluti sem Hugleikur elskar er ögn jákvæðari eins og gefur að skilja. Þar má finna krúttlega hluti eins og þegar fólk prumpar og hlær á sama tíma.

Hugleikur segist í samtali við Nútímann hafa fengið samviskubit eftir að hafa birt neikvæða listann. „Þetta átti upprunalega að vera nótur fyrir uppistand en svo áður en ég vissi var ég búinn að drita úr mér þessum tuð-lista. Eftir að ég setti hann á netið fékk ég samviskubit yfir allri neikvæðninni og skellti í ástarlistann,“ segir hann.

 Hugleikur elskar…

1) Þegar fólk hrósar manni svo fallega að það hefur varanleg áhrif á mig og ég reyni að breyta mér til batnaðar bara svo að ég geti gengist hrósinu þeirra.

2) Þegar fólk verður ekkert pirrað þó ég man ekki eftir þeim.

3) Þegar fullur strætó af gamalmennum og öryrkjum kemur mér til varnar þegar ein pirruð kona skammar mig fyrir að vera með Eminem allt of hátt í vasadiskóinu mínu.

4) Þegar litlir krakkar biðja um selfie með mér og ég horfi á mömmuna með svona “leyfirðu börnunum þínu að lesa dótið mitt?” svip og mamman horfir til baka með svona “þau lifa það af” svip.

5) Þegar fólk tiplar á tánum í kringum mig afþví ég skrifaði lista yfir allt sem ég þoli ekki við fólk.

6) þegar fólk er sammála mér um hvað er fólk er óþolandi.

7)þegar fólk er ósammála mér um hvað fólk er óþolandi og tekst að sannfæra mig um að það er ekki óþolandi heldur jafnvel soldið þolandi.

8) Þegar fólk býður mér í mat.

9) Þegar fólk kemur í heimsókn því þau voru bara í nágrenninu.

10) Þegar fólk lætur mig vita að ég sé með opna buxnaklauf.

11) Þegar fólk finnur nýtt viðurnefni á mig. Ekkert hefur samt toppað Hullsubrauðið.

12) Þegar fólk sendir drykk yfir til mín án þess að sýna sig og mér líður eins og prinsessu.

13) Þegar fólk sem maður elskar verður ástfangið af öðru fólki sem maður elskar.

14) Þegar fólk er kurteist við þjónustufólk. 

15) Þegar fólk ropar og notar ropið til að segja a-ið í afsakið. 

16) Þegar fólk sem hatar hryllingsmyndir horfir á hryllingsmynd með mér.

17) Þegar fólk segir “sorrí hvað ég var leiðinlegur við þig einu sinni” og ég man ekkert eftir því og svara “guð hafðu ekki áhyggjur af því”. 

18) Þegar fólk er sammála um að Mad Max Fury Road sé besta mynd 21 aldarinnar.

19) Þegar fólk sem ég var leiðinlegur við gefur mér tækifæri til að biðjast afsökunnar þó svo að ég ætti að eiga frumkvæðið að því.

20) Þegar fólk er sammála mér um að Batman Returns er næstbesta batman myndin.

21) Þegar fólk treystir mér fyrir leyndarmáli. 

22) Þegar fólk nennir að hanga og gera ekkert. 

23) Þegar fólk veit hvað það er lélegt að syngja en tekur samt lag í karaoke.

24) Þegar fólk skammar mig í stað þess að vera meðvirkt eins og þegar Ingunn sagði “Hulli þú ert svo mikil dramadrottning” og ég hef ekki verið dramadrottning síðan. Eftir bestu getu.

25) Þegar fólk sendir mér póstkort.

26) Þegar fólk með einhverfu gefur sig á tal við mig.

27) Þegar fólk sem ég er að vinna fyrir er hreinskilið og segir “nei ég er ekki að fíla þetta” og ég segi “ókei þá nenni ég ekki að gera þetta” en allir eru samt vinir.

28) Hvernig fólk lifnar við þegar það talar um eitthvað sem það elskar. Sérstaklega þegar ég hef ekki hugmynd um hvað þau eru að tala um.

29) Þegar fólk reynir að hlæja ekki þegar skokkari hleypur á staur og reynir í stað þess að bjóða honum aðstoð sína en það er erfitt því þau eru öll alveg að springa úr hlátri og þurfa að bíða eftir að skokkarinn haltrar úr augsýn til að geta hlegið eins og það sé að fá flog.

30) Þegar fólk sem ég vissi að væri klárt reyndist vera fokking snillingar og ég verð alltíeinu feiminn við þau á opnuninni þeirra.

31) Þegar fólk nær að grilla mig.

32) Þegar fólki tekst að fokka í mér.

33) Þegar random fólk brosir til manns.

34) Þegar random fólk gefur mér fimmu útá götu.

35) Þegar random fólk lagar miðann aftann á peysunni minni.

36) Þegar fólk gerir góðverk og segir engum frá því.

37) Þegar fólk segir “þetta reddast” þegar allt er fokkt.

38) Þegar fólk sem ég hélt að þoldi mig ekki var bara feimið við mig og ég fatta að margir halda örugglega að ég þoli þau ekki þegar ég er bara feimin við þau.

39) Þegar fólk sem að ég hélt að væri sjálfhverft, tilgerðarlegt og athyglissjúkt reynist vera meira og minna nákvæmlega eins og ég og allt í einu erum við bestu vinir.

40) Þegar vinkonuhópur á fimmtugsaldri er tipsý á næsta borði að hlæja að lélegum typpabrandörum.

41) Þegar vinkonuhópur á tvítugsaldri eru að baktala vinkonu sína á næsta borði og þær fatta ekki að ég er að hlusta því ég er með headfóna.

42) Þegar fólk kúrar platónskt.

43) þegar fólk réttir mér ungabarnið sitt þrátt fyrir að ég sé skíthræddur við það.

44) Þegar fólk fílar eitthvað sem enginn annar fílar og er drullusama hvað ykkur finnst.

45) Þegar fólk lætur mig vita ef ég hef sært það. 

46) Þegar fólk lætur mig vita að þau fíluðu ekki verk eftir mig án þess að vera a dick about it.

47) Þegar fólk trúir á drauga og galdra og stjörnumerki og guð og svoleiðis sjitt.

48) Þegar fólk er stolt af meintum göllum sínum, hvort sem það er hamstrafóbía eða gúmmíhanskablæti eða bara full on krónískur geðsjúkdómur því hvað er annað hægt en að vera stoltur afþví að kommon krakkar, skömminn er tímasóun.

49) Þegar fólk leggur sig fram við að skilja í stað þess að dæma, elska í stað þess að hata og hjálpa í stað þess að hunsa. Því það er erfitt að skilja, elska og hjálpa en það sem maður fær til baka er ómetanlegt. Leggja sig fram og vera næs. Það er trikkið. Þetta var minna væmið í hausnum á mér.

50) Þegar fólk prumpar og hlær á sama tíma.

Hugleikur þolir ekki….

1) Þegar fólk spyr mig hvað ég sé að gera þessa dagana.

2) Þegar fólk segir mér frá bíómyndum eða sjónvarpsþáttum sem ég hef ekki séð.

3) Þegar fólk í partý hjá mér stoppar playlistann minn til að spila það sem þau vilja heyra.

4) Þegar fólk sýnir mér óumbeðið youtube myndbönd eða meme á símanum sínum.

5) Þegar fólk hringir í mig til að biðja mig um eitthvað með 5 mínútna formála. Segðu mér bara hvað þú vilt. 

6) Þegar fólk segir “má ég aðeins trufla þig?”. Nei þú mátt ekki trufla mig. Því þá ertu að trufla mig.

7) Þegar fólk segir “ég horfði aldrei á Buffy en ég horfði á Charmed”.

8) Þegar fólk segir “sorrí með mig en ég hef aldrei séð Star Wars”. Það er í fyrsta lagi ekkert til að vera sorrí yfir og í öðru lagi ekkert merkilegt. Gildir líka um Game of Thrones og Harry Potter og bara allt. 

9) Þegar fólk segir að Hollywood myndir séu „svo amerískar“. No shit sherlock. Þú ættir að vera í Cannes dómnefndinni.

10) Þegar fólk segir “þú mátt nota þennan”.

11) Þegar fólk verður móðgað ef maður man ekki eftir að hitt það áður. Get over yourself. 

12) Þegar fólk vill tala um hvað list og sköpun sé falleg og mikilvæg. Ég er 100% sammála en plís tölum um eitthvað annað.

13) Þegar fólk vill tala um alheiminn og tímann og heimspeki og svoleiðis sjitt.

14) Þegar fólk gefur í skyn að það sé óeðlilegt að vera barnlaus.

15) Þegar fólk segist elska svartan húmor. Þetta hugtak hefur enga merkingu fyrir mér.

16) Þegar fólk heldur að ég sé kaldhæðinn þegar ég er að reyna að vera einlægur. (það er kannski mér og mínu resting-deadpan-face að kenna).

17) Þegar fólk heldur að ég sé alltaf í stuði til að heyra ógeðslega brandara.

18) Þegar fólk vill hittast yfir kaffi eða bjór til að tala um eitthvað sem við getum talað um í messenger.

19) Þegar fólk heldur að það sé einhver klíka eða elíta sem ræður öllu í listheimum. Jújú það er kannski ogguponsu klíkuskapur en restin er kaós. 

20) Þegar fólk pitchar hugmyndir á djamminu. Hættu að pitcha og byrjaðu að gera. 

21) Þegar fólk kennir áhorfendum um sinn eigin lélega performans.

22) Þegar fólk spyr mig “afhverju mátt þú segja þetta en ekki ég?”. 

23) Þegar fólk heldur að “góða fólkið” sé actually til. Góða fólkið er samsæriskenning fólks sem vill fá að vera með vafasamar skoðanir í friði.

24) Þegar fólk heldur að málfrelsi gerir kúkalabbaskap þess einhvernveginn minna kúkalabbalegann.

25) Þegar fólk er alltíeinu hætt að væla yfiir listamannalaunum og byrjað að væla yfir innflytjendum í staðinn. Plís nenniði að væla aftur yfir listamönnum. Við elskum það.

26) Þegar fólk heldur að pólítísk rétthugsun sé að drepa grín. Það eru margar leiðir til að díla við pólitíska rétthugsun þegar kemur að gríni. Að væla “má maður ekkert” er ekki ein af þeim. 

27) Þegar fólk tuðar um hvað U2/Coldplay/Ed Sheeran sé glatað drasl. We get it. Þú ert með þróaðann tónlistarsmekk.

28) Þegar fólk byrjar setningar á “fyrst ég er með þig hérna…”

29) Þegar fólk sem á pening heldur sjálfkrafa að maður viti hver þau eru. Bara afþví að þú átt flugfélag eða banka þýðir ekki að þú sért eftirminnilegri en pulsusalinn minn. Pulsusalinn minn selur mér allavega pulsur. 

30) Þegar fólk sem er að grilla mig segir “hey rólegur” þegar ég grilla það á móti.

31) Þegar fólk segir “ég þekki frænda þinn” eða “við erum kviðmágar” eins og það sé að átta sig á fyrst núna að við búum á íslandi.

32) Þegar fólk neggar mann.

33) Þegar fólk sem er ekki hvítt eða samkynhneigt segir orðin niggari eða faggi til að vera ögrandi. 50 bucks að þú þorir ekki að segja þessi orð í kringum viðkomandi minnihlutahópa.

34) Þegar fólk segir “en þið voruð svo góð saman” við fólk sem er nýhætt í sambandi.

35) Þegar fólk er afbrýðissamt. Ef kærastan þín er að tala við annan gaur er hún ekki að fara heim með honum. Og ef hún fer heim með honum ættiru kannski að bara hætta með henni. Eða bara vera í opnu sambandi því þá getur þú líka farið heim með einhverjum og þið getið svo borið saman sögur ykkar í fyrramálið. Er það ekki bara gaman? 

36) Þegar fólk segist ekki vera feministi heldur jafnréttissinni. Eiginlega fer það ekki lengur í taugarnar á mér því það er næstum því fyndið þegar fólk segir það í dag. 

37) Þegar fólk horfir á nýjasta meistaraverk kvikmyndasögunnar á tölvunni en ekki í bíó og segir síðan “mér fannst hún ekkert sérstök”. 

38) Þegar fólk hefur heyrt að einhver frægur sé víst algjört bitch.

39) Þegar fólk heldur að Jeff Buckley samdi Halleluja. 

40) Þegar fólk kvartar yfir veðrinu.

41) Þegar fólk kvartar yfir Kardashian fjölskyldunni. (jafn pointless og að kvarta yfir veðrinu).

42) Þegar fólk kvartar yfir því að maður sagði ekki hæ við þau útá götu þegar þau sögðu ekki hæ sjálf. 

43) Þegar fólk kvartar yfir neikvæðni á internetinu þegar það er sjálft akkúrat þá að vera neikvætt á internetinu.

44) Þegar fólk endar facebook statusa á “ræðið”.

45) Þegar fólk commentar aulabrandara á facebook þegar ég er að leitast eftir aðstoð eða ráðgjöf.

46) Þegar fólk heldur að Pulp Fiction sé költ mynd.

Auglýsing

47) Þegar fólk heldur að það sé Marvel nördar því það hefur séð allar Marvel myndirnar.

48) Þegar fólk heldur að Súpermann sé leim ofurhetja. Hann er fokking bítlarnir. 

49) Þegar fólk segir mér hvað sé ekki fyndið. 

50) Þegar fólk segir að það sé heimskulegt að trúa á guð eins og trúlaust fólk viti eitthvað meira um tilveru guðs en trúað fólk. Við eru öll fikrandi um í sama myrkrinu og trúleysi er jafn blind alhæfing og trú. Auk þess er guð afstætt hugtak sem við mótum á þann hátt sem okkur hentar og bara af því að amma þín vill meina að guð sé kall á skýji og þú vilt meina að guð sé hugtak yfir ástina þýðir ekki að annað ykkar hafi rangt fyrir sér því í grunninn eruð þið að tala um það sama. Og ef þú vilt meina að guð sé dauð/ur og ekkert hafi merkingu og við séum ein í alheiminum þá er það bara flott hjá þér en plís ekki “tilla þér aðeins” hjá mér til tala við mig um það því ég er að vinna. 

Auglýsing

læk

Instagram