Hvetja Sjálfstæðisflokkinn til að endurskoða stjórnarsamstarfið

Heimdallur, félag ungra Sjálfstæðismanna, hvetur þingflokk Sjálfstæðisflokksins til þess að endurskoða ríkisstjórnarsamstarfið við Framsóknarflokkinn. Þetta kemur fram í stjórnmálaályktun sem send var út í kjölfar aðalfundar félagsins fyrr í kvöld.

Þingmenn og forystumenn Framsóknarflokksins hafa hvorki í orði né verki sýnt að þeir vilji auka frelsi almennings. Mikið er að þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykkja 80 milljarða fjáraustur úr ríkissjóði til að kaupa góðvilja Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfi. Á meðan er samstarfsvilji Framsóknarflokksins ekki meiri en svo að formaður og þingmenn flokksins tala tæpitungulaust gegn frekari skattalækkunum, víðsýni í áfengis- og fíkniefnalöggjöf og ábyrgri stjórn í ríkisfjármálum. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að fórna frelsishugsjóninni og sínum helstu baráttumálum fyrir ríkisstjórnarsetu.

Þá kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að opna sig fyrir framfarasinnuðum og frjálslyndum gildum í kjölfar áfalls sem flokkurinn beið í sveitastjórnarkosningunum í Reykjavík. „Ekki er lengur boðlegt að ungliðahreyfingin ein breiði út grunngildi flokksins á meðan kjörnir fulltrúar hans skýla sér bakvið raunhyggju stjórnmálanna.“

Heimdallur harmar að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi samþykkt og tekið þátt í „stærstu ríkisvæðingu einkaskulda í Íslandssögunni.“

Flokkur sem kennir sig við frelsi einstaklingsins og ábyrgð í ríkisfjármálum á ekki að láta 80 milljarða af skattfé ganga hrossakaupum þegar samið er um ríkisstjórnarsamstarf. Slíkum fjármunum ætti að verja í að borga niður skuldir ríkissjóðs og lækka þannig vaxtabyrði ríkisins og auka hagsæld til lengri tíma.

Föstum skotum er skotið á Framsóknarflokkinn í ályktuninni. Ríkisstjórnin er til að mynda hvött til að ráðast í breytingar á landbúnaðarkerfinu „sem er dragbítur á íslensku efnahagslífi“.

Ríkið á ekki að styrkja óhagkvæman atvinnurekstur með skattpeningum. Þá þarf að afnema tolla og vörugjöld á innfluttum vörum neytendum til mikilla hagsbóta.

Loks lýsir Heimdallur yfir stuðningi við að Félag múslima á Íslandi fái að reisa sér bænahús í Reykjavík. Félagið telur hins vegar að afnema eigi ákvæði í lögum um Kristnisjóð þar sem mælt er fyrir um að sveitarfélögum sé skylt að leggja trúfélögum til ókeypis lóðir.

Heimdallur gagnrýnir einnig málflutning Framsóknarflokksins í nýliðnum borgarstjórnarkosningum og telur að tryggja verði að frelsi til trúariðkunar verði ekki skert í nafni fordóma, fáfræði eða hræðsluáróðurs.

 

Auglýsing

læk

Instagram