Íslenskt bíósumar í Bíó Paradís: „Einstakt úrval af íslenskum bíóperlum fyrir sumarið“

Bíó Paradís mun sýna einstakt úrval af íslenskum kvikmyndum yfir sumarið. Myndirnar sem verða sýndar með enskum texta í allt sumar eru Hross í Oss, Hrútar, Undir trénu, 101 Reykjavík, Hrafninn Flýgur, Mýrin, Á Köldum Klaka (Cold Fever) og Kona fer í stríð.

Atli Viðar Þorsteinsson, kynningarstjóri Bíó Paradís, er ánægður með að geta boðið upp á gott úrval af íslenskum bíómyndum fyrir kvikmyndaáhugamenn.

Hann nefnir sérstaklega Hrafninn flýgur, sem hefur ekki verið sýnd í almennum sýningum langa lengi og Á Köldum Klaka sem sömuleiðis hefur varla sést í kvikmyndahúsum síðan hún kom út.

„Hrafninn flýgur er almennt talin besta víkingamynd allra tíma, nú sýnd í nýrri, upphreinsaðri útgáfu, og óhætt að segja að hún hefur ekki litið svona vel út síðan hún kom út árið 1984. Kjörin bæði fyrir Íslendinginn og túristann,“ segir Atli.

„Á Köldum Klaka hefur sömuleiðis varla sést í kvikmyndahúsum síðan hún kom út fyrir utan nokkrar sérsýningar, Siskel & Ebert gáfu henni tvo þumla upp og almennt fékk hún frábæra dóma sem fóru framhjá flestum á Íslandi þegar hún kom út. Svo inniheldur hún bæði línuna „How do you like Iceland?“ -„Very strange country“, og Fisher Stevens úr Short Circuit, bæði 1 og 2.“

Atli segir þá að myndir eins og Hross í Oss, Undir trénu, Kona Fer í Stríð og Hrútar séu sérstaklega fyrir alla Íslendinga sem búa í útlöndum og koma heim í frí. Fólk sem missti ef til vill af sýningum á þessum myndum á sínum tíma.

„Þessar myndir röðuðu inn verðlaunum; Bæði Kona fer í stríð og Hross í Oss unnu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs og Hrútar Un Certain Regard á Cannes. 101 Reykjavík er svo frumraun Balta sem kvikmyndagerðarmanns og það er mjög gaman fyrir alla að sjá Reykjavík ársins 2000 aftur í gegnum linsuna,“ segir Atli.

Auglýsing

læk

Instagram