Jóhann Jóhannsson lést vegna ofneyslu kókaíns

Tónskáldið Jóhann Jóhannsson lést vegna ofneyslu kókaíns. Embætti saksóknara í Berlín fór fram á eiturefnarannsókn í kjölfar andláts Jóhanns en það er þýski fjölmiðillinn Bild sem greinir frá.

Jóhann fannst látinn í íbúð sinni í Kreuzberg í Berlín þann 9. febrúar síðastliðinn en hann var 48 ára gamall.

Sjá einnig: Jóhann Jóhannsson látinn

Í frétt Bild kemur fram að Jóhann hafi tekið lyf við veikindum þegar hann lést en að stór skammtur kókaíns hafi dregið hann til dauða.

Jóhann hafði gert það gott í kvikmyndatónlist síðustu ár og fékk meðal annars Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni „The Theory of Everything“ árið 2015.

Sjá einnig: Jóhann vann að tónlist fyrir stórmynd frá Disney þegar hann lést

Lokaverk hans var tónlistin í kvikmyndinni „Mandy“ með Nicholas Cage í aðalhlutverki. Nýlega var tilkynnt að tónlist kvikmyndarinnar verði gefin út þann 14. september næstkomandi, sama dag og myndin verður frumsýnd.

Leikstjóri kvikmyndarinnar Panos Cosmatos sendi frá sér tilkynningu þar sem hann sagði Jóhann hafa unnið baki brotnu og reynt á sín ystu þolmörk til að gera tónlistina fyrir kvikmyndina.

„Mig grunar að Jóhann hafi einnig reynt á þolmörk geðheilsu sinnar við að gera tónlistina. Orð hans og gjörðir urðu til þess að hann varð ekki bara frábær samstarfsfélagi heldur var hann mér eins og bróðir. Ég er leiður að tími okkar saman hafi verið svo stuttur en ég er gríðarlega stoltur af því sem hann áorkaði með tónlistinni í Mandy og trúi því að hann hafi líka verið það.“

Lagið „Children Of The Dawn“ úr kvikmyndinni Mandy

Auglýsing

læk

Instagram