today-is-a-good-day

Kettlingarnir í krúttlega húsinu slá í gegn um allan heim: „Björk, Sigur Rós og Kattarshians!“

Kettlingarnir í krúttlegasta raunveruleikaþætti heims, Keeping Up With The Kattarshians, hafa slegið rækilega í gegn eftir að bein útsending hófst á Nútímanum og á rás 0 í Sjónvarpi Símans. Fjallað hefur verið um þáttinn í alþjóðlegum fjölmiðlum og þúsundir um allan heim fylgjast með ævintýrum Bríetar, Ronju, Stubbs og Guðna.

Það er til marks um vinsældir Kattarshians að eftir að útsending hófst hefur aðsókn á Nútímann aukist mikið. Síðasta vika var sú aðsóknarmesta frá stofnun Nútímans en notendurnir voru rúmlega 151 þúsund. Það segir samt ekki alla söguna um vinsældir Kattarshians en útsendingin fer í gegnum Youtube og þúsundir fylgjast með þættinum þar.

Fréttirnar á RÚV og Stöð 2 hafa fjallað um Kattarshians rétt eins og kollegar þeirra úti í heimi. Fjallað hefur verið um þáttinn á vef breska dagblaðsins The Telegraph og Metro lét ekki sitt eftir liggja. Þá hefur einn aðsóknarmesti fréttavefur heims, The Huffington Post, fjallað um Kattarshians ásamt fjölbreyttum fjölmiðlum um allan heim.

Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans, er gríðarlega ánægður með vinsældirnar. „Ef þetta heldur svona áfram fer fólk úti í heimi að tala um Kattarshians í samhengi við stærstu stjörnur landsins. Þá verður þetta Björk, Sigur Rós og Kattarshians,“ segir hann léttur.

Loks var ritstjórinn í viðtali í beinni útsendingu á Sky News fyrir helgi að ræða um kettlingana. Á skrifstofu Nútímans berast nú fjöldi beiðna um að fá að sýna frá þessum krúttlegasta raunveruleikaþætti heims og það sér ekki fyrir endann á vinsældunum.

Á næstunni fá Bríet, Ronja, Stubbur og Guðni ný heimili en þá taka nýir kettlingar við og þátturinn heldur áfram.

Auglýsing

læk

Instagram