Lestu drögin að siðareglum starfsmanna ríkisins: Starfsmenn mega benda á brot annarra án eftirkasta

Engar umsagnir hafa enn borist um nýjar siðareglur starfsmanna ríkisins í samráðsgátt stjórnvalda en hægt er að skila þeim inn til 26. janúar. Um er að ræða siðareglur sem eiga við um alla starfsmenn ríkisins, hvort sem þeir starfa við símsvörun eða sinna embætti ráðherra.

Meðal þess sem kemur fram í þessum drögum er að þeir sem láta vita af meintum brotum starfsmanna á einhverjum af þeim siðareglum sem taldar eru upp hér að neðan njóta friðhelgi eða eins og segir í lögunum:

„Starfsfólk geldur ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum“

Nýju drögin eru fyrir margar sakir mjög áhugaverðar og þá sérstaklega í ljósi fjölda umdeildra mála sem snert hafa starfsmenn ríkisins, þó einkum þingmenn og ráðherra.

Siðareglurnar eru afrakstur starfshóps sem forsætisráðherra skipaði í október 2022. Hafði hópurinn það hlutverk að leiða vinnu við endurskoðun siðareglna ráðherra, starfsfólks Stjórnarráðsins og starfsfólks ríkisins. Meðal helstu markmiða vinnunnar var að tryggja heildarsýn og samræmi siðareglna.

Helsta nýbreytnin í drögum að nýjum siðareglum fyrir starfsfólk ríkisins er að nú eru þær flokkaðar í sjö flokka sem eru þeir sömu og í siðareglum ráðherra og starfsfólks Stjórnarráðsins. Einnig hefur nokkrum reglum verið bætt við og orðalagi lítillega breytt í öðrum.

Hér fyrir neðan má sjá drögin að nýju lögunum um siðareglur starfsmanna ríkisins.

1.     grein – Frumskyldur

a)     Starfsfólk ríkisins starfar samkvæmt stjórnarskrá og lögum í þágu almannahagsmuna.
b)    Starfsfólk gætir fyllstu fagmennsku og sinnir störfum sínum af vandvirkni og heiðarleika.
c)     Starfsfólk hefur í heiðri lýðræðisleg gildi, virðir jafnrétti og önnur mannréttindi.

2.     Grein – Hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar

a)     Starfsfólk ríkisins forðast hagsmunaárekstra og hefur samráð við yfirmann í vafatilvikum.
b)    Starfsfólk gætir þess að fjárhagsleg og persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf þeirra.
c)     Starfsfólk sinnir ekki aukastörfum sem eru ósamrýmanleg starfinu.
d)    Starfsfólk forðast viðtöku gjafa ef líta má á þær sem endurgjald fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.

3.     grein – Meðferð fjármuna

a)     Starfsfólk ríkisins sýnir ráðdeild við meðferð fjármuna og spornar gegn sóun.

4.     grein – Háttsemi og framganga

a)     Starfsfólk ríkisins vandar samskipti og kemur fram af háttvísi og virðingu.
b)    Starfsfólk gætir að orðspori vinnustaðar í samskiptum utan vinnu.

5.     grein – Faglegir starfshættir

a)    Starfsfólk ríkisins tileinkar sér vinnubrögð sem skapað geta traust á starfi þeirra og stofnun.
b)    Starfsfólk stendur vörð um óhlutdrægni og faglegt sjálfstæði.
c)     Starfsfólk stuðlar að góðum samskiptum á vinnustað.
d)    Starfsfólk lætur samstarfsfólk njóta sannmælis og sanngirni.
e)    Starfsfólk leitar samvinnu um úrlausn mála eftir því sem kostur er.
f)     Starfsfólk gætir trúnaðar um atriði er gæta skal trúnaðar um.

6.     grein – Gagnsæi og upplýsingamiðlun

a)     Starfsfólk ríkisins stuðlar að gagnsæi í starfsemi stofnunar og gætir þess að upplýsingar séu aðgengilegar í samræmi við lög og almenn viðmið.

7.     grein – Ábyrgð og eftirfylgni

a)     Starfsfólk ríkisins ber ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum í samræmi við stöðu sína
b)    Starfsfólk hvetur samstarfsfólk til að leita réttar síns telji það á sér brotið.
c)     Starfsfólk vekur athygli viðeigandi aðila á ólögmætum ákvörðunum og athöfnum.
d)    Starfsfólk geldur ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum eða fyrir að leita réttar síns telji það á sér brotið.

8.     grein – Gildistaka

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi almennar siðareglur starfsmanna ríkisins, nr. 491/2013

Auglýsing

læk

Instagram