Auglýsing

Leynd hvílir yfir sjálfsvígsbréfi á Litla Hrauni: „Af hverju fær pabbi hans ekki að vita hvað stóð í kveðjubréfinu?“

Þann 5. maí síðastliðinn fannst ungur maður í blóma lífsins látinn í klefa á Litla Hrauni. Hann hét Ingvi Hrafn Tómasson og var 30 ára gamall. Ingvi Hrafn hafði, eins og mörg hundruð Íslendingar á hans aldri, glímt við vímuefnafíkn og allar þær hamfarir sem slíkri fíkn fylgja. Ingvi Hrafn átti ekki mikið eftir af fangelsisdómi sínum þegar hann fannst látinn í klefa á Litla Hrauni. Hann átti í raun grátlega lítið eftir og var að klára að afplána dóm sinn á Vernd í Reykjavík þegar hann er enn og aftur sviptur frelsi sínu – handtekinn af sérsveitinni og fluttur í einangrun fyrir utan Eyrarbakka.

„Það er verið að leyna einhverju. Ég er fullviss um það“

Fyrir hvað? Barnsmóðir hans hafði lagt fram kæru á hendur á honum vegna meintrar nauðgunar – lögbrot sem aldrei hefur verið rannsakað og mun, í ljósi þess að Ingvi Hrafn er fallinn frá, aldrei verða rannsakað. Þrátt fyrir að um var ræða kæru sem ekkert hafði verið skoðuð, eða rannsökuð, þá var komið fram við Ingva Hrafn eins og hann væri sekur. Hann var sóttur af sérsveitarmönnum í skyndi á fangaheimilinu Vernd að Laugateigi í Reykjavík og Ingvi Hrafn fluttur í offorsi í einangrun á Hólmsheiði og þar var hann yfirheyrður. Eftir það var Ingvi Hrafn fluttur á elsta starfandi fangelsi landsins – Litla Hraun.

Ingvi Hrafn ásamt föður sínum, Tómasi Ingvasyni, og systkinum sínum. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi. Úr einkasafni.

Sóttur og handtekinn í offorsi án rannsóknar

Nútíminn hefur undir höndum myndskeið sem sýna þegar Ingvi Hrafn er fluttur af Vernd. Þau myndskeið fylgja ekki þessari frétt en á þeim sést þegar bifreið á vegum sérsveitar Ríkislögreglustjóra brýtur öll umferðarlög að Laugateigi og keyrir á ólöglegum hraða og í offorsi út götuna – í átt að Hólmsheiði þar sem Ingvi Hrafn grátbað um andlega aðstoð. Við tóku yfirheyrslur en að þeim loknum var hann færður yfir á Litla Hraun. Þar bað hann einnig um andlega aðstoð. Aðstoð sem hann ekki fékk. Ingvi Hrafn svipti sig lífi í kjölfarið.

Nútíminn bjóst við jafn skjótu svari og áður hafði borist frá embættinu. Það gekk hinsvegar ekki eftir. Lögreglan á Suðurlandi kaus að svara ekki þessari mikilvægu viðbótarspurningu. Sú staðreynd rennir stoðum undir þær ásakanir Tómasar, föðurs Ingva Hrafns, að verið sé að leyna fjölskyldunni einhverju sem fram kemur í sjálfsvígsbréfinu.

„Það að vera sviptur frelsi með þeim hætti, án dóms eða yfirleitt sönnunarfærslu, er gríðarlega þungbært og ætti fólk í þeirri stöðu að vera undir eftirliti sérfræðinga í geðheilbrigði og sálgæslu,“ skrifuðu samtökin Afstaða, félag fanga á Íslandi, á Facebook-síðu sína í kjölfar andláts Ingva Hrafns.

Enginn vill svara föður Ingva Hrafns

En frá því faðir Ingva Hrafns fékk þær ömurlegu fréttir að hann væri látinn þá hefur hann reynt að leita svara hjá yfirvöldum. Svör sem allir foreldrar myndu leitast við í sömu stöðu. Enginn hefur svarað honum. Ekki lögreglan á Suðurlandi, sem fer með rannsókn andlátsins, ekki Fangelsismálayfirvöld eða dómsmálaráðherra. Hvers vegna ekki? Það er spurning sem Nútíminn hefur að undanförnu leitast við að svara.

„Þeir sögðu við mig að vegna rannsóknarhagsmuna fengi ég bara að sjá þennan hluta bréfsins“

„Það eina sem ég get gert er að hafa samband við fjölmiðla og fá þá til þess að fá svör við þessum spurningum sem ég, faðir hans Ingva Hrafns, sit eftir með. Ég mun ekkert gefast upp fyrr en þessi svör liggja fyrir. Ég er búinn að missa báða syni mína sem háðu lífsbaráttu sína inni í þessu kerfi og ég mun ekki una mér hvíldar fyrr en ég fæ einhver svör,“ sagði Tómas Ingvason, faðir Ingva Hrafns í viðtali við Nútímann. Viggó Emil, eldri bróðir Ingva Hrafns, lést þann 5. maí árið 2018. Nákvæmlega sex árum síðar – upp á dag – svipti Ingvi Hrafn sig lífi. Viggó Emil var 29 ára þegar hann lést. Ingvi Hrafn 30 ára.

En hvaða spurningar eru það sem Tómas vill fá svör við?

Fengu rafræna útgáfu af handskrifuðu sjálfsvígsbréfi

Svona lítur kveðjubréf Ingva Hrafns út – að minnsta kosti er þetta útgáfan sem foreldrarnir fengu í hendurnar. Sjálfsvígsbréf hans var hinsvegar handskrifað og telur faðir hans að það vanti eitthvað inn í það.

„Drengurinn minn skilur eftir sig sjálfsvígsbréf og við höfum ekki fengið það afhent. Það eina sem við fengum var rafræn útgáfa af sjálfsvígsbréfinu. Eitthvað sem lögreglan hefur slegið inn í Word og svo sent á okkur. Gott og vel. Það væri ásættanlegt ef það innihéldi allt sem stóð í bréfinu. Það er bara ekki þannig,“ sagði Tómas sem vildi meina að lögreglan á Suðurlandi hefði ekki látið fylgja með allt sem stóð í umræddu sjálfsvígsbréfi. Nútíminn hefur undir höndum hið rafræna sjálfsvígsbréf sem lögreglan ritaði upp og sendi á aðstandendur hans. Í bréfinu er Ingvi Hrafn að kveðja son sinn. Bréfið er hægt að sjá hér fyrir neðan en búið er að fjarlægja nafn sonar Ingva Hrafns. Bréfið er birt með leyfi Tómasar, föður Ingva Hrafns.

„Það er verið að leyna einhverju. Ég er fullviss um það.“

Með þær ásakanir Tómasar að leiðarljósi hafði Nútíminn samband við lögregluna á Suðurlandi, sem fer með rannsóknina á andláti sonar hans á Litla Hrauni. Rannsókn sem Tómas taldi að væri frekar klippt og skorinn enda hefði embættið, að hans sögn, gefið það út að um væri að ræða sjálfsvíg. Það staðfesti reyndar Afstaða, félag fanga á Íslandi, en í tilkynningu frá samtökunum , sem birtist í fjölmiðlum daginn eftir andlát Ingva Hrafns, kom fram að andlátið hafi ekki „borið að með saknæmum hætti.“ Hvað þarf þá að rannsaka? Af hverju heldur Tómas að hann hafi ekki fengið að sjá allt sjálfsvígsbréf sonar síns? Hefur hann eitthvað fyrir sér í því?

Svöruðu spurningum á mettíma þar til að…

„Þeir sögðu við mig að vegna rannsóknarhagsmuna fengi ég bara að sjá þennan hluta bréfsins,“ sagði Tómas við Nútímann.

Það skal tekið fram að Nútíminn er ekki með nokkrum hætti að réttlæta þau lögbrot sem Ingvi Hrafn framdi eða kann að hafa framið. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um foreldra sem hafa misst báða drengi sína og eru í sárum.

Þann 13. júní hafði Nútíminn samband við lögregluna á Suðurlandi og óskaði þess að fá svör við spurningum sem snéru að „andláti á Litla Hrauni þann 5. maí síðastliðinn.“

Spurningar Nútímans til embættisins voru þrjár talsins:

1. Hvers vegna fær fjölskylda mannsins ekki afhentar eigur hans og handskrifað sjálfsvígsbréf?

2. Hvaða rannsókn er í gangi og að hverju snýr hún? Það er búið að gefa út að um sjálfsvíg var að ræða, hvað þarf að rannsaka?

3. Hvenær má búast við því að þeirri rannsókn ljúki?

Segjast hafa upplýst aðstandendur

Bræðurnir Ingvi Hrafn og Viggó Emil. Þeir dóu báðir á sama degi – 5. maí. Viggó Emil árið 2018 en Ingvi Hrafn á þessu ári.

Það tók lögregluembættið á Suðurlandi nákvæmlega einn klukkutíma og þrjátíu og þrjár mínútur að svara.

1. Lögregla lagði ekki hald á eigur mannsins annað en umrætt bréf. Hvað varðar sjálfsvígsbréf þá hefur lögregla upplýst aðstandendur um innihald þess.

2. Lögregla er að rannsaka mannslát og ber lögreglu að rannsaka öll möguleg gögn til að upplýsa um andlátið. Ekki er hægt að útiloka að andlátið hafi borið að með öðrum hætti fyrr en lokaniðurstaða krufningar liggur fyrir en sú skýrsla liggur ekki fyrir. Hinsvegar hefur bráðabirðarniðurstaða útilokað aðild annars manns að andlátinu.

3. Krufning er framkvæmd af réttarmeinafræðingi sem skilar bráðabirgðarskýrslu og svo lokaskýrslu. Lögregla hefur ekki upplýsingar um hvenær sú lokaskýrsla berst en það getur tekið nokkrar vikur til viðbótar. Samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara nr 9/2017 getur lögregla ekki afhent aðstandendum afrit af rannsóknargögnum fyrr en að rannsókn málsins er lokið.

Aukaspurningin sem setti hljóð í embættið

Fullnægjandi svör? Það þótti okkur á Nútímanum. Tómas, faðir Ingva Hrafns, var hinsvegar ekki sáttur. Hann hélt því fram, og heldur því fram, að lögreglan hafi ekki látið aðstandendur Ingva Hrafns vita um allt innihald bréfsins. Í ljósi þess var ákveðið að senda lögreglunni eina aukaspurningu. Hún var send á lögregluna á Suðurlandi tuttugu mínútum eftir að svar frá þeim barst Nútímanum.

Spurningin var svohljóðandi:

Takk kærlega fyrir skjót svör. Mér skilst á fjölskyldu mannsins að þau hafi aðeins fengið að sjá hluta af bréfinu – sjá viðhengi. Er eitthvað annað sem kom fram í bréfinu en er ekki í umræddu viðhengi v/ rannsóknarhagsmuna?

Nútíminn bjóst við jafn skjótu svari og áður hafði borist frá embættinu. Það gekk hinsvegar ekki eftir. Lögreglan á Suðurlandi kaus að svara ekki þessari mikilvægu viðbótarspurningu. Sú staðreynd rennir stoðum undir þær ásakanir Tómasar, föðurs Ingva Hrafns, að verið sé að leyna fjölskyldunni einhverju sem fram kemur í sjálfsvígsbréfinu.

Hvað þolir ekki dagsljósið?

„Hvað er það sem þolir ekki dagsljósið? Hvað skrifaði fallegi drengurinn minn í sjálfsvígsbréfið sem ég má ekki vita? Hvað er það sem ég má ekki lesa? Hvað er eiginlega í gangi?“ sagði Tómas við Nútímann þegar honum var tjáð hver svör embættisins voru við spurningum miðilsins. Því ber þó að halda til haga að Nútíminn hefur ítrekað umrædda spurningu við embætti lögreglunnar á Suðurlandi og er beðið eftir svörum.

„Þau vita sem skömmina eiga og ættu sjá sóma sinn í því að eiga frumkvæði að samtali um þessi málefni“

Það skal tekið fram að Nútíminn er ekki með nokkrum hætti að réttlæta þau lögbrot sem Ingvi Hrafn framdi eða kann að hafa framið. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um foreldra sem hafa misst báða drengi sína og eru í sárum. Ungir menn sem töpuðu lífsviljanum – fastir í kerfi sem hefur verið gagnrýnt harðlega fyrir að vera barns síns tíma, fjársvelt í niðurníddu fangelsi þar sem geðheilbrigðisþjónusta er af skornum skammti – vægt til orða tekið. Þjónusta sem bjargar mannslífum. Þjónusta sem er ekki í boði í fangelsum á Íslandi – að minnsta kosti ekki í tilfelli Ingva Hrafns. Andlát hans er þó ekki einsdæmi. Langt í frá.

Skömmin er þeirra

„Afstaða mun taka málið beint upp við dómsmálaráðherra en hvetur félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra að skoða jafnframt hvað hægt sé að gera til að ekki tapist fleiri líf með þessum hætti. Þá verða önnur sveitarfélög en Reykjavík að koma að borðinu því það er óásættanlegt að borgin þurfi ein að styðja við jaðarsetta hópa. Þau vita sem skömmina eiga og ættu sjá sóma sinn í því að eiga frumkvæði að samtali um þessi málefni,“ skrifaði Afstaða um andlát Ingva Hrafns.

Baráttan er þess virði

Þær ljósmyndir og skjáskot sem birtast með þessari umfjöllun eru fengin frá fjölskyldu Ingva Hrafns og birt með góðfúslegu leyfi þeirra. Þá hefur Tómas, faðir Ingva Hrafns, einnig gefið leyfi fyrir því að um andlát sonar hans sé fjallað með þessum hætti.

„Ég vildi óska þess að þurfa ekki að berjast fyrir þessu í fjölmiðlum en hvað get ég gert? Ég vona svo innilega að ekkert foreldri þurfi að ganga í gegnum það sem við höfum þurft að ganga í gegnum og því gefst ég ekki upp. Ef barátta mín fyrir svörum verður til þess að fangar fái þá sálrænu hjálp og þá geðheilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á þá er þetta þess virði,“ sagði Tómas.

UPPFÆRT 07:58

Nútímanum hefur borist svar frá lögreglunni á Suðurlandi:

Hluti bréfsins er ekki beint til þeirra aðstandenda sem hafa óskað eftir gögnum málsins heldur til annars aðila og því var tekin ákvörðun á þessu stigi að afhenda þeim ekki bréfið í heild sinni.“
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing