Lögfræðingur og borgarfulltrúi vill breytingar á RÚV og segir faglegum vinnubrögðum oft ýtt til hliðar

Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur og borgarfulltrúi telur nauðsynlegt að tekin sé alvarleg umræða um hlutverk Ríkisútvarpsins. Hann segir fréttastofu stofnunarinnar hafa í alltof mörgum málum ekki sinnt hlutlægnisskyldu sinni og hefur áhyggjur af því að starfsfólk stofnunarinnar sé oft á tíðum undir áhrifum bergmálshella sem geri það að verkum að faglegum vinnubrögðum sé ýtt til hliðar.

Þetta segir Helgi Áss í viðtali við Frosta Logason í „Spjallið með Frosta“ á hlaðvarpsveitunni Brotkast.

„Það sem er mjög fróðlegt í lýðræðisríki að það á að vera fjölbreytni. Þess vegna þarf að vera agi í vinnubrögðunum. Það á að gera kröfur til ríkismiðils sem fær svona mikið forskot, svona mikið af peningum frá skattgreiðendum. Ég tel að í allt of mikið af svona málum þá hefur Ríkisútvarpið ekki sinnt hlutlægnisskyldu sinni með þeim hætti sem ég tel vera ásættanleg. Punkturinn minn er að það er viss hætta á því að þeir sem eru starfsmenn þarna lifi í bergmálshellum og telji þess vegna þetta vera réttlætanlegt vegna þess að lykilatriðið er að reyna að eyða samfélagsböli sem sýnir ójöfnuð og óréttlæti og þetta sé svo mikilvægt að það trompi allt annað.“

Hann er á þeirri skoðun að stokka þurfi upp og er óhræddur við að segja það upphátt.

„Já, ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að stokka upp hjá Ríkisútvarpinu. Það er mín pólitíska skoðun,“ segir Helgi Áss og tekur dæmi.

„Ýmsar atvinnugreinar, eins og til dæmis sjávarútveginn eða eitthvað slíkt, það er alltaf tilhneiging að vera með neikvæða umfjöllun um þá atvinnugrein og búa til svo einhver mál sem er oft á tíðum ekki fótur fyrir. Jafnvel einhverjir voða miklir fréttaskýringarþættir síðan er heimildarvinnan ekki nægilega traust. Ég get bara nefnt það sem dæmi því ég tel mig hafa sérþekkingu á lögum og reglum sem tengjast sjávarútvegi en það er bara eitt dæmi. Það væri hægt að taka fleiri,“ segir Helgi Áss sem finnst hann vera að greiða allt of mikið til stofnunar sem fær tækifæri til þess að afla sér fjár með auglýsingum og hann vill breytingar.

„Aðalatriðið er að mér sem skattgreiðanda finnst vera greiða allt of mikið til þessarar stofnunar sem fær allt of mörg tækifæri til þess að afla sér sjálfaflarfjár með auglýsingum og fleira og ég vill bara sjá breytingar á þessu hlutverki. Verulegar breytingar. Það kæmi alveg til álita jafnvel að einkavæða hana, leggja hana niður. Ég vill fá umræðu um hvað á að vera hlutverk þessarar stofnunar.“

Þú getur séð myndskeið úr þessu viðtali hér fyrir neðan en til þess að hlusta og horfa á allt viðtalið þarft þú áskrift hjá Brotkast. Áskriftina færðu á vefsíðu hlaðvarpsveitunnar – Brotkast.is.

Auglýsing

læk

Instagram