today-is-a-good-day

Neyddist til að loka aðgangi sínum vegna áreitis eftir frétt DV: „Í harðri keppni við Pírata um réttlætis- og siðferðisverðlaun ársins”

Leiklistarneminn og sprelligosinn Vilhelm Netó neyddist til þess að loka Twitter aðgangi sínum í gær vegna áreitis sem hann hefur fengið eftir fréttaflutning DV vegna nauðgunarmáls Kjartans Guðjónssonar leikara.

Forsaga málsins er sú að Vilhelm sagði það ólíðandi að dæmdir nauðgarar og menn sem hafa verið kærðir oft fyrir nauðgun haldi áfram að fá vinnu. Vilhelm nafngreindi engan í tísti sínu en í svörum við tísti hans var Kjartan Guðjónsson nafngreindur og einnig í frétt DV.

Kjartan hefur undanfarið birst á sjónvarpsskjá landsmanna í auglýsingum fyrir SS pylsur. Þær auglýsingar hafa nú verið teknar úr umferð vegna dóms Kjartans. Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir í samtali við DV að Kjartan hefði ekki verið ráðinn í hlutverk Árna pylsusala hefði fyrirtækið vitað af dómnum.

Kjartan var árið 1989 dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir hrottafengna nauðgun. Viðbrögð margra við frétt DV eru þau að  Vilhelm sé vondi kallinn fyrir að rifja það upp. Þingmaðurinn Brynjar Níelsson er einn af þeim en hann gagnrýndi Vilhelm opinberlega á Facebook síðu sinni í gær og sagði hann í harðri keppni við Pírata um réttlætis- og siðferðisverðlaun ársins.

„Honum finnst fullkomlega eðlilegt og siðferðilega rétt að leikarinn, Kjartan Guðjónsson, megi hvergi starfa til að hafa ofan í sig og á, þar sem hann hafi fengið 15 mánaða fangelsisdóm fyrir tæpum 30 árum. Nú er bara að vona að Vilhelm Neto misstigi sig aldrei á hálri braut réttvísinnar svo hann þurfi ekki að eyða lífinu allslaus á framfæri skattgreiðenda,” skrifar Brynjar.

Sigurður Bjartmar segir á Twitter að það sé hinsvegar ekki upprifjunin á málinu sem sé ógeðsleg heldur málið sjálft. Fleiri taka í sama streng og Vilhelm hefur fengið mikinn stuðning á Twitter þar sem hann er gífurlega vinsæll.

Auglýsing

læk

Instagram