Ný bílastæðamerki fyrir hreyfihamlaða í Reykjavík: Sýna manneskju á hreyfingu sem er frjáls sinna ferða

Reykjavíkurborg hefur hafið innleiðingu á nýju bílastæðamerki fyrir hreyfihamlaða einstaklinga. Þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir framan Breiðholtslaug eru nú auðkennd með nýja bílastæðamerkinu. Þetta kemur fram á vef Öryrkjabandalags Íslands.

Á nýja merkinu má sjá einstakling í hjólastól á ferð. Nýja merkið hefur verið innleitt í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna auk borga í Evrópu, Kanada og víðar.

Merkið var kynnt á málþingi Öryrkjabandalags Íslands í vor en þar lýsti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri yfir stuðningi við að merkið yrði innleitt í borginni.

Á vef Öryrkjabandalagsins segir að nýja merkið hafi á sér annan brag en það sem notað hafi verið undanfarna áratugi. Það sýni manneskju í virkni, manneskju á hreyfingu sem er frjáls sinna ferða.

Auglýsing

læk

Instagram