Ný byggð í Skerjafirðinum: rúmlega þúsund íbúðir, nýr skóli og bygging brúar yfir Fossvog

Borgarráð samþykkti tillögu að nýju rammaskipulagi fyrir nýja byggð í Skerkjafirðinum. Í rammaskipulaginu er gert ráð fyrir 1200 íbúðum, nýjum skóla, verslun og annarri þjónustu auk byggingu brúar yfir Fossvog. RÚV greinir frá en þetta kemur fram í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgðar.

Rammaskipulagið, sem unnið var af Ask arkitektum, tekur til landsvæðis sem er við enda litlu flugbrautarinnar sem hefur nú verið lokað. Svæðið afmarkast af götunni Skeljanesi til vesturs og öryggissvæði Reykjavíkurflugvallar til norðurs og austur en strandlengja Skerjafjarðar afmarkar suðurenda byggðarinnar.

Gert er ráð fyrir fjölbreyttum húsagerðum og ríkulegum, grænum almenningsrýmum á svæðinu. Félagsleg blöndun verður einnig á svæðinu en bæði stúdentar og Bjarg, byggingarfélag verkalýðshreyfingarinnar hafa fengið velyrði fyrir lóðum í nýju byggðinni.

Einnig er hugsað fyrir tengingu hverfisins við áframhaldandi uppbyggingu í Vatnsmýri þegar flugvöllurinn fer þaðan.

Samkvæmt frétt RÚV um málið var rammaskipulagið samþykkt þann 28. júní síðastliðinn með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins.

Í bókun meirihlutans segir að rammaskipulagið sé einn margra veigamikilla þátta sem stuðla að aukinni uppbyggingu húsnæðis í Reykjavík.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu einnig fram bókun þar sem tillagan að rammaskipulaginu er gagnrýnd fyrir að vera samþykkt án þess að heildstætt umferðarmat fari fram á svæðinu. Það skjóti skökku við að hugmyndir um uppbyggingu í Örfirisey hafi verið gagnrýndar á grundvelli umferðarmála en þetta ekki.

Í bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins er gagnrýnt að ekki hafi verið haft fullnægjandi samráð við hagsmunaaðila málsins, til að mynda aðila í flugtengdum rekstri og íbúa svæðisins.

Fleiri myndir má finna á vefsíðu Ask Arkitektar hér.

Auglýsing

læk

Instagram