Nýtt íslenskt borðspil vekur athygli: „Okkur langaði að búa til spil sem fær fólk til að tala og hlæja saman”

Hjónin Bergur og Tinna stefna á útgáfu á nýju íslensku borðspili í lok sumars. Þau hafa undanfarið ár nýtt kvöldin sín í að þróa spilið sem byggir á þeirra eigin hugmynd.

Spilið heitir Sjónarspil og er fjögurra til átta manna fjölskyldu- og partíspil sem gengur út á að leggja út spil með lýsingarorðum sem lýsa mótspilurunum best. Allir spilarar eru með sömu spil á hendi en það er ekkert rétt svar heldur fá spilarar stig eftir því hversu margir mótspilarar leggja út sama spjald.

„Þú getur fylgt eigin sannfæringu og valið orð sem þér finnst lýsa meðspilurum best eða sýnt kænsku og valið orð sem þú telur að flestir muni velja,” segir Bergur.

Aðspurð um spilið segir Tinna að þeim hjónum hafi lengi langað að búta til spil sem fengi fólk til að hlæja og tala saman. Allar prufukeyrslur hafi sýnt að það hafi tekist vel.

„Það hafa komið upp allskyns tilvik þar sem það hefur komið fólki á óvart hvaða lýsingarorð vinir og fjölskylda nota um það,” segir hún.

Því fylgja svo oft sögur sem draga fram rétta mynd af viðkomandi sem geta verið ótrúlega skondnar. Við sjáum að þetta spil slær í gegn hjá öllum vinahópum sem hafa fengið að prófa það.

Fjármögnun spilsins á KarolinaFund hófst á fimmtudaginn sl. og náði 20% af markmiði sínu á einum sólarhring. Viðtökurnar hafa því ekki látið á sér standa og greinilegt að Íslendingar eru spenntir fyrir þessu nýja spili. Lesendur geta stutt við verkefnið og tryggt sér eintak á KarolinaFund.com en markmiðið er að spilið lendi á klakanum í lok sumars.

Auglýsing

læk

Instagram