Rikka hætt á 365 miðlum

Fjölmiðlakonan Friðrika Hjördís Geirsdóttir, best þekkt sem Rikka, er hætt hjá 365 miðlum. Rikka hefur starfað þar með annan eða báða fætur í áratug. Þetta kemur fram á vefsíðu Rikku.

„Ég hef alltaf verið talskona þess að leita uppi nýjar áskoranir og hvatt fólkið mitt til að horfast í augun við óttann og sigrast á áskorunum sem fyrir þeim liggja,“ segir Rikka á vefsíðu sinni.

Það er því vel við hæfi að ég fari eftir því sjálf og takist nú á við nýja áskoranir.

Eftir tíu ára starf skilaði Rikka af sér síðasta verkefninu fyrir 365 í gær. „Verkefnið var innblað í Fréttablaðinu um ráðstefnuna Foodloose sem haldin verður á fimmtudaginn næstkomandi,“ segir hún.

„Innblaðið endurspeglaði eina af mínum ástríðum sem er að vekja fólk til umhugsunar um eigin heilsu og taka ábyrgð á lífinu sem því er gefið.“

Rikka segir að þessi hugsunarháttur hafi litað verkefni sín undanfarin ár. „Þegar ég gerði matreiðsluþættina þá var það mín ósk að endurspegla hamingju og gleði,“ segir hún.

„Þegar við framleiddum Létta spretti var hugmyndin að koma öllum áhorfendum út að hreyfa sig og með því breiða út líkamlega og andlega vellíðan sem svo síðar skilar sér í betri samskiptum okkar við hvert annað.“

Hún segir að þættirnir Hjálparhönd hafi verið til þess gerðir að opna augu fólks fyrir nærumhverfinu.

„Við öll sem eitt getum haft áhrif og með því að taka þátt í hjálparstarfi á einhvern hátt, hvort sem það er innan hjálparsamtaka eða okkar nánustu, styrkjum við stoðir þess góða samfélagsins sem við búum í,“ segir hún.

„Við styrkjum líka okkur sjálf með því að hjálpa öðrum því það er fátt eins fullnægjandi og að geta veitt öðrum aðstoð sem á þurfa að halda.“

Smelltu hér til að lesa færslu Rikku á vefsíðu hennar.

Auglýsing

læk

Instagram