Rosanne brast í grát vegna rasískra tísta: „Ég vissi ekki einu sinni að hún væri svört.“

Bandaríska leikkonan Roseanne Barr brotnaði niður og sagðist hafa misst allt í tilfinningaþrungnu viðtali eftir að hún var rekin frá nýlega endurvöktum grínþætti sínum, Roseanne. Barr birti rasískt tíst á Twitter-síðu sinni í maí þar sem hún líkti Valerie Jarett, svartri konu og fyrrverandi ráðgjafa Baracks Obama Bandaríkjaforseta, við apa. Framleiðslu á þáttunum hætt og leikkonan rekin.

Tístið birti hún á Twitter-síðu sinni 29. maí síðastliðinn en þar sagði hún Jarett vera barn Bræðralags múslima, egypsks flokks íslamista,, og kvikmyndanna um Apaplánetuna. „Bræðralag múslima og Apaplánetan áttu barn=vj“ og vísaði hún þar til Jarett.

Stuttu eftir að tístið birtist fóru hneykslisraddir að heyrast. Hún baðst fljótt afsökunar og eyddi tístinu en það dugði ekki til og sjónvarpsstöðin ABC hætti framleiðslu á þáttunum og ráku hana. Sjónvarpsstöðin tilkynnti síðan í síðustu viku að framleiðslu þáttanna skildi haldið áfram með svokallaðri „spin-off“ seríu sem hefur fengið nafnið The Connors. Allar persónur fyrri þáttanna munu halda áfram í nýja þættinum nema Roseanne sjálf.

Í sínu fyrsta viðtali eftir að hafa verið rekin ræddi Barr um tístið sem varð henni að falli. Viðtalið birtist í hlaðvarpsþáttaröð rabbínans Shmuley Boteach um helgina en hann er vinur Barr. Hún sagðist sjá hrikalega mikið eftir tístinu og að hún hafi misst allt í kjölfarið.

„Ég sá eftir þessu áður en ég missti allt og sagði við Guð að ég væri tilbúin að taka hvaða afleiðingum sem koma í kjölfarið því ég veit að þetta var rangt. Og ég hef tekið afleiðingunum.“

„Ég er málglöð og allt það en ég er ekki heimsk í guðanna bænum, og ég myndi aldrei vísvitandi kalla neina svarta manneskju…segja að þau séu apar. Ég myndi aldrei gera það! Og ég gerði það ekki, þó svo að fólk haldi það,“ sagði Barr grátandi.

„Þetta var svo óljóst og heimskulegt. Mér þykir þetta mjög leitt en ég myndi aldrei gera þetta, ég á ástvini sem eru svartir.“

Barr segist enn fremur ekki hafa vitað að Jarett sé svört. „Ég er ósammála stjórnmálaskoðunum hennar og hélt að hún væri hvít. Ég vissi ekki að hún væri svört.“

Það er rétt að geta þess að aðeins ellefu klukkutímum eftir að hún baðst afsökunar á tístinu hófst hún aftur handa við að tísta samsæriskenningar um hana.

Hún minntist einnig á svefnlyfjanotkun sína í viðtalinu við Boteach en hún sagði upphaflega að ástæðan fyrir tístinu hafi verið sú að það hafi verið nótt og hún hafi tekið svefnlyfið Ambien.

Fyrirtækið Sanofi sendi frá sér yfirlýsingu á Twitter í kjölfarið þar sem það fullyrðir að fólk verði ekki rasískt af notkun lyfja fyrirtækisins.

Í viðtalinu segir hún enga afsökun fyrir tístinu en að svefnlyfið hafi verið útskýring á gjörðum hennar.

Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem Barr tístir einhverju umdeildu. Hún hefur verið dugleg að gefa samsæriskenningum byr undir báða vængi á samfélagsmiðlinum.

Hér er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni

Auglýsing

læk

Instagram