Ryan Gosling vildi opna Mjölni í Los Angeles: „Hann elskaði þessar æfingar“

Leikarinn Ryan Gosling hefur hvatt Jón Viðar Arnþórsson, formann Mjölnis, til að opna bardagaklúbbinn í Los Angeles og vildi koma að opnuninni sjálfur. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Gosling dvaldi hér á landi árið 2013 á meðan Valdís Óskarsdóttir klippari var að klippa kvikmyndina How to Catch a Monster, sem er frumraun leikarans í leikstjórastólnum. Eva Mendes, kærastan hans, kom einnig til landsins og dvaldi með honum í Reykjavík.

Ryan Gosling æfði í Mjölni á meðan hann dvaldi hér á landi. Jón Viðar segir í Morgunblaðinu að hann hafi kunnað vel að meta æfingarnar. Svo vel að hann vildi taka þær með sér til Los Angeles.

Hann elskar þessar æfingar og hafði áhuga á því að opna Mjölni í LA en svo datt það upp fyrir.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins vinnur Mjölnir nú að því að opna í Vestmannaeyjum. Þá stendur til að klúbburinn flytji af Seljavegi í gamla húsnæði Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð í vor.

Auglýsing

læk

Instagram