Segir fullyrðingar Tyrkja um biðina á flugvellinum stórlega ýktar: „Virðist ekki hafa verið óeðlilegt“

Víðir Reynisson, öryggisfulltrúi Knattspyrnusambands Íslands, segir að ummæli Tyrkja vegna tafar á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi stórlega ýkt. Þetta kemur fram á vef Vísis í dag.

Tyrkneskir landsliðsmenn í fótbolta hafa kvartað mikið yfir lengd á öryggisleit og vegabréfaeftirliti við komuna til Íslands í gær og segjast hafa verið í rúma þrjá tíma á leið sinni í gegnum flugvöllinn. Mikil reiði er í heimalandinu vegna málsins og þá einnig vegna blaðamanns sem tók viðtal við fyrirliða liðsins með uppþvottabursta.

Sjá einnig: Íslendingar á Twitter tjá sig um uppþvottaburstamálið: „Verður varla leyst nema í næstu Eurovision-keppni“

Víðir greinir frá því á Vísi að hann hafi rætt við fulltrúa tyrkneska knattspyrnusambandsins sem tjáðu honum að rétt rúmar tvær klukkustundir hefðu liðið frá því vél tyrkneska landsliðsins lenti á Keflavíkurflugvelli og þar til liðið var komið á hótel í Reykjavík. Liðið hafi einungis eytt rúmum klukkutíma á flugvellinum.

Sjá einnig: Tyrkir hafa kvartað formlega við íslensk stjórnvöld vegna móttökunnar sem landsliðið fékk

Víðir segir einnig að íslenska liðið hafi gengið í gegnum öryggisleit og vegabréfaeftirlit þegar liðið sneri heim eftir leik gegn því tyrkneska í Tyrklandi fyrir tveimur árum. Flugvöllurinn sem þeir flugu frá er ekki vottaður af alþjóðlegum flugmálayfirvöldum og þurfa því farþegar sem koma þaðan að fara í gegnum ítarlegri öryggisleit og vegabréfaeftirlit.

„Sennilega nákvæmlega eins og þeir. Eftir því sem ég best veit virðist þetta ekki hafa verið óeðlilegt,“ segir Víði í samtali við Vísi.

Auglýsing

læk

Instagram