Segir Íslendinga geta lært mikið af þungarokkurum í Þýskalandi: „Meiri áhersla á að tryggja frið og ró”

Þorsteinn Kolbeinsson eyddi verslunarmannahelginni í Þýskalandi þar sem hann fór ásamt hópi Íslendinga á Wacken Open Air hátíðinni í Þýskalandi. Þorsteinn segir að Íslendingar geti lært mikið af skipuleggjendum tónlistarhátíða erlendis þegar kemur að öryggi gesta.

Þorsteinn var viðstaddur blaðamannafund sem var haldinn síðasta dag hátíðarinnar. Þar tjáðu sig allir helstu aðkomuaðilar hátíðarinnar, þar á meðal aðalskipuleggjendur, fulltrúar slökkviliðsins, björgunarsveita og lögreglu.

Þar kom fram að á hátíðinni, sem stendur í sex daga, hafi verið tilkynnt um 9 líkamsárásir og engin kynferðisbrot eða nauðganir.

„Setjið þetta í samhengi við það að Wacken er 100 þúsund manna hátíð sem stendur yfir í sex daga, þetta eru djók tölur,” segir Þorsteinn.

Hann segir að lögreglan hafi þakkað þungarokk aðdáendum sérstaklega fyrir. „Þið lítið kannski grimmilega út en þið eruð bestu aðdáendur í heimi í augum lögreglunnar.”

Sjá einnig: Struku af elliheimilinu og fóru á þungarokkhátíð í Þýskalandi

Þorsteinn hefur farið á hátíðina 15 ár í röð og segist aldrei hafa orðið var við slagsmál né alvarlegri brot. Hann segir að það virðist vera að almenn ró tengist þungarokkurum og ef til vill fái þeir næga útrás í gegnum tónlistina sem þeir hlusta á.

Hann segir að Íslendingar sem haga sér eins og fávitar á útihátíðum þurfi að hætta því og það þurfi að gera það skýrt að það sé ekki ásættanleg hegðun að haga sér eins og „heilalaus hálfviti” við það eitt að skemmta sér.

„Allar útihátíðir ættu að taka upp einkunnarorð Eistnaflugs í raun. Þetta með kynferðisbrotin í Eyjum er til dæmis klár skandall. Það er óskiljanlegt að stjórnendur setji ekki upp sama Bannað að vera fáviti skilti og Eistnaflug.”

Þorsteinn segir þó að hann verði mun minna var við löggæslu á Wacken en á íslenskum útihátíðum. Hann hafi þó ekki farið á þjóðhátíð og þekki ekki almennilega inn á þá hátíð.

„Ég held að úti sé lagt mun meiri áherslu á að tryggja frið og ró í staðinn fyrir að nappa hvern einasta grasreykingarmann. Ég sá til dæmis engan fíkniefnahund á Wacken. Ég efast ekki um að lögreglan hefði getað fundið fleiri fíkniefnanotendur ef þeir hefðu verið sýnilegri en ég held það sé bara ekki áherslan.”

35 fíkniefnamál komu upp í Eyjum yfir verslunarmannahelgina samanborið við tíu á Wacken hátíðinni.

Auglýsing

læk

Instagram