Siggi Hlö púaði á Bubba á afmælistónleikunum í Hörpu fyrir opinbera hvern hann ætlar að kjósa

Bubbi Morthens fékk óblíðar móttökur frá útvarps- og athafnamanninum Sigga Hlö á afmælistónleikum sínum í gær. Bubbi varð sextugur 6. júní og hélt upp á það með tónleikum í Hörpu.

Vísir greinir frá því að Bubbi hafi farið fögrum orðum um Andra Snæ Magnason forsetaframbjóðanda. Siggi Hlö segir í samtali við Vísi að Bubbi hafi haldið framboðsræðu sem varð til þess að hann stóð upp og púaði.

Ég kunni bara illa við þetta og fannst þetta algjörlega óviðeigandi og taktlaust. Þetta átti bara ekkert við í sextugsafmæli, að vera með framboðsfund. Ég púaði því nokkuð hressilega á hann og það voru nokkrir þarna í kringum mig sem störðu hreinlega á mig.

Bubbi sýndi engin viðbrögð samkvæmt frétt Vísis. „Hann er náttúrulega orðinn heyrnalaus elsku kallinn og kominn með heyrnatæki,“ segir Siggi sem er yfirlýstur stuðningsmaður Höllu Tómasdóttur.

„Ég ætlaði svo sem ekkert að fara slást eitthvað við hann þarna, en mig langaði bara að lýsa yfir óánægju minni með þetta. Að öðru leyti var þetta alveg frábært kvöld og æðislegir tónleikar.“

Bubbi bregst við ummælum Sigga í athugasemd undir frétt Vísis og segir að Siggi hefði getað tekið fram að hann sagði þetta vera sína skoðun. „Ég tók fram að ég væri ekki að biðja neinn um að kjósa hann Andra svo það komi nú fram,“ segir Bubbi.

„Ég sagði margt í gær. Þetta var eitt af því. Ég vona samt að kvöldið hafi verið Sigga ánæjulegt. Honum var boðið í mat og á tónleika og svo fékk hann fallega afmælisgjöf þannig ég vona þetta góða boð hafi ekki sett líf hans á hliðina.“

Auglýsing

læk

Instagram