Sigmundur segir að reynt hafi verið að múta sér: „Oftar en einu sinni menn sendir að tala að við mig“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lýsti því í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag hvernig aðilar á vegum vogunarsjóðana sem eiga hagsmuna að gæta á Íslandi hafi reynt að múta honum þegar hann var forsætisráðherra til að fá sanngjarna úrlausn sinna mála.

Þrír vogunarsjóðir og Goldman Sachs-bankinn keyptu á dögunum samtals 29,18 prósent hlut í Arion banka. Ekki liggur fyrir hverjir endanlegir eigendur fjármagnsins sem notað var í kaupin eru.

Sigmundur Davíð sagði á Sprengisandi að þessir aðilar hefðu möguleika á að beita ýmsum aðferðum til að hámarka hagsmuni sína og sagði að stjórnmálamenn yrðu að þora að standa upp í hárinu á þeim.

„Það var nánast gert grín að því þegar ég fór að lýsa því á flokksþingi 2015 hvernig þessir aðilar störfuðu — lýsa atburðum sem ég hafði lent í og svo framvegis,“ sagði hann.

Einhverjir töldu að þetta hlytu að vera hugarórar, einhvers konar paranoja. Svo hefur eitt og annað komið í ljós og menn sjá betur og betur hvernig þessir aðilar starfa.

Sigmundur Davíð sagði að kaupendahópurinn hafi beitt ýmsum ráðum í ýmsum löndum. „Og því skildi þeir ekki beita þeim ráðum sem þeir komast upp með á Íslandi eins og annars staðar?“ spurði hann og vísaði í að Och-Ziff Capital Management Group, einn af vogunarsjóðunum þremur sem fjárfesti í Arion, hafi gengist við því að greiða milljarða sekt vegna mútumáls í Afríku ásamt dótturfélagi sínu. Þá voru fyrirtækin til rannsóknar vegna áforma um að múta opinberum starfsmönnum í Kongó og Líbíu.

Þá sagði Sigmundur að reynt hafi verið að múta honum. „Mér var boðið að leysa málin á þann hátt að ég gæti verið sáttur við það og þeir yrðu sáttir og málið leyst,“ sagði hann.

„Mér var reyndar líka hótað – oftar hótað en boðin ásættanleg lausn. Það voru oftar en einu sinni menn sendir að tala að við mig, spyrja hvort ég væri ekki til í að klára þetta mál þannig að allir gætu vel við unað.“

Hlustaðu á brot úr þættinum hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Instagram