Skrillex verndar gegn moskítóflugum

Samkvæmt nýrri rannsókn er hægt að forðast moskítóbit með því að hlusta á Skrillex. Tónlist Skrillex truflar flugurnar þannig að þær bíta síður og fjölga sér minna. Rannsóknin var birt í ritrýndu læknisfræðiriti og fjallað var um hana á vef BBC.

Vísindamennirnir á bak við rannsóknina segja að hljóð gegni grundvallarhlutverki þegar kemur að fjölgun, afkomu og viðhaldi stofnsins hjá mörgum dýrum. Þeir létu fullvaxta moskítóflugur af tegundinni Aedes aegypti, sem er þekkt fyrir að bera gulusótt, hlusta á raftónlist til að sjá hvort hún gæti fælt flugurnar.

Lagið Scary Monsters And Nice Sprites eftir Skrillex, sem er af samnefndri plötu, varð fyrir valinu af því að það blandar saman mjög hárri og mjög lágri tíðni. Vísindamennirnir sögðu að titringurinn frá hljóðbylgjum af lágri tíðni geti auðveldað kynferðisleg samskipti, en að há hljóð geti truflað samskipti dýranna.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar virtust kvenkyns moskítóflugur „njóta“ lagsins og bitu því sjaldnar. Þær drukku líka minna blóð þegar tónlistin var í gangi. Síðast en ekki síst kom í ljós að moskítóflugurnar stunduðu miklu minna kynlíf ef tónlistin var í gangi.

Vísindamennirnir segja að þessar uppgötvanir geti leitt til nýrra aðferða til að verjast moskítóbitum, en moskítóflugur bera með sér margra hættulega sjúkdóma og áætlað er að þannig valdi þær yfir 700 þúsund dauðsföllum á ári.

Auglýsing

læk

Instagram