Sóli Hólm berst við krabbamein: „Ég lagði af stað í þetta ferðalag fullur af bjartsýni“

Fjölmiðlamaðurinn og skemmtikrafturinn Sólmundur Hólm greindist með Hodgkins eitilfrumukrabbamein í sumar. Hann fór í fyrstu lyfjagjöfina 1. ágúst og hefur farið á tveggja vikna fresti síðan þá. Sóli greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Sóli greindist eftir að hann tók eftir bólgu á hálsinum á sér þar sem hann stóð fyrir framan spegilinn eftir sturtu og dáðist að eigin sögn að sköpunarverkinu Sólmundi Hólm. „Ég fór til heimilislæknis sama dag og til að gera langa sögu stutta þá var búið að greina mig 11 dögum síðar,“ segir hann í færslunni.

Krabbameinstegundin sem ég fékk er nokkuð „góð“, ef svo má að orði komast. Eiginlega má bara segja að ég hafi verið heppinn. Tegundin svarar lyfjameðferð yfirleitt vel og batahorfur góðar.

Sóli fór í PET-skanna í Kaupmannahöfn á dögunum í annað sinn og sýndi skanninn að lyfjameðferðin er að bera frábæran árangur. „Ég er rúmlega hálfnaður með meðferðina og sé fram á að vera búinn í byrjun nóvember. Þá tekur við endurhæfing til að ná aftur fullu þreki,“ segir hann en lyfjameðferðin hefur tekið sinn toll.

„Vissulega er meðferðin þó farin að taka meiri og meiri toll. Ég er með minna og minna þrek og er lengur að jafna mig eftir hverja lyfjagjöf þó ég hafi aldrei verið rúmliggjandi af vanlíðan, langt því frá.“

Þrátt fyrir að batahorfur séu góðar segir Sóli að það sé mikið og stórt áfall að greinast með krabbamein. „Bæði fyrir þann sem greinist og ekki síst aðstandendur sem finna fyrir miklum vanmætti og varnarleysi,“ segir hann.

„Fyrir mér var tíminn meðan verið var að greina meinið þó langerfiðastur. Þessi nagandi óvissa, vitandi að það væri eitthvað að og auðvitað óttast maður alltaf það allra, allra versta. Þegar greiningin svo kom þá var hún auðvitað miklu léttvægari en það sem mínar myrkustu hugsanir voru búnar að búa mig undir. Ég lagði því af stað í þetta ferðalag fullur af bjartsýni, jákvæðni og óútskýrðum krafti.“

Sóli býr með fjölmiðlakonunni Viktoríu Hermannsdóttur en þau voru búin að vera saman í nokkra mánuði þegar hann greindist. „Þó ég sé þokkalega ritfær get ég með engu móti komið því í nógu sterk orð hversu gott það hefur verið fyrir mig að hafa hana með mér í þessu. Það er efni í annan miklu lengri pistil. Ég er svo auðvitað einstaklega heppinn með vini og ættingja,“ segir hann.

Færslu Sólmundar má lesa hér fyrir neðan

Jæja, kæru vinir. Eins og býsna mörg ykkar vita eru nú liðnir um tveir og hálfur mánuður frá því ég greindist með…

Posted by Sóli Hólm on Þriðjudagur, 3. október 2017

Auglýsing

læk

Instagram