Stefnir í langstærstu tónleika Íslandssögunnar: Leyfi fyrir 26.900 áhorfendum á Guns N’ Roses

Sýslumaðurinn í Reykjavík gefur leyfi fyrir 26.900 áhorfendnum á tónleika Guns N’ Roses sem fara fram á Laugardalsvelli næsta þriðjudag, 24. júlí. Þetta verða því stærstu tónleikar Íslandssögunnar en þegar þetta er skrifað hafa selst rúmlega 23 þúsund miðar og því enn hægt að næla sér í miða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum tónleikanna.

Skipuleggjendur segja að frá upphafi hafi mikil áhersla verið lögð á að virða þolmörk Laugardalsvallar en einnig hafi þeir viljað ganga úr skugga um að fjöldi áhorfenda yrði hæfilegur til að öryggið væri alltaf í fyrirrúmi.

Á sama tíma sé nauðsynlegt að búa til umhverfi þar sem tónleikagestir geti notið sín og upplifað risatónleika á Íslandi af stærðargráðu sem ekki hefur áður sést hér á landi.

Í samráði við sýslumannsembættið, starfsfólk Laugardalsvallar og erlenda sérfræðinga í tónleikauppsetningu sem starfa fyrir tónleikaferðalag Guns N’ Roses var lokatala miða því sett í 26.900 sem gerir þessa tónleika þá langstærstu í tónlistarsögu Íslands. 

Hliðin á Laugardalsvelli opna kl. 16.30 á þriðjudag. Íslenska eyðimerkurrokksveitin Brain Police stígur á stokk kl. 17.15 og klukkutíma síðar spilar Tyler Bryand & the Shakedowns. Veislan nær svo hámarki um kl. 20 þegar Guns N’ Roses mæta á sviðið þar sem búast má við miklu sjónarspili og stórkostlegu tónaflóði að því er kemur fram í tilkynningu skipuleggjenda.

Hægt er að næla sér í miða hér.

Auglýsing

læk

Instagram