Þingmaðurinn Gunnar Hrafn er á batavegi: „Ég er allur að koma til“

Þingmaðurinn Gunnar Hrafn Jónsson, sem tók sér veikindahlé frá störfum í desember vegna alvarlegs þunglyndis, segist allur vera að koma til .

Hann greindi frá veikindum sínum í færslu á Facebook sem vakti gríðarlega athygli, fylgdi því eftir með áhrifaríku sjónvarpsviðtali og lét vita af sér með annarri færslu í dag.

Sjá einnig: Áhrifaríkt viðtal við Gunnar Hrafn um þunglyndi: „Maður einangrar sig. Og líður vítiskvalir.“

Í viðtalinu sagðist Gunnar Hrafn meðal annars hafa reynt sjálfvíg oftar en einu sinni. Svona lýsti hann þunglyndinu:

„Í raun og veru algjört svartnætti, maður missir allan vilja til allra verka, maður hættir að hirða sjálfan sig og aðra og hafa samband við vini sína, maður einangrar sig. Og líður vítiskvalir. Grætur, einn uppi í rúmi, jafnvel heilu dagana án þess að gera neitt eða fara út, eða borða. Þetta er bara eins og að liggja lamaður, ég get bara ekki lýst kvölunum sem geta fylgt þessu.“

Gunnar Hrafn segist í færslu sinni í kvöld hafa verið í frekar slöppu netsambandi að undanförnu og því hafi hann ekki náð að svara þeim þrjú hundruð skilaboðum og tölvupóstum sem hann fékk eftir að hann greindi frá þunglyndinu.

„Því vildi ég bara láta vita að ég er allur að koma til og skila þökkum til vina, kunningja, fjölskyldu og ókunnugra sem hafa hjálpað mér. Það hefur verið ómetanlegt að finna allan þennan stuðning. Ég hef meðal annars heyrt frá kollegum þvert á flokka og hlakka til að snúa aftur á þing. Hvenær það verður er ekki fastákveðið en ég ætla að ræða það við þingflokkinn á næstunni og vonandi kem ég sterkur til baka fljótlega eftir að nýtt þing hefst,“ segir í færslu Gunnars Hrafns.

Þingmaðurinn ætlar að reyna að gera gott úr erfiðleikunum með því að nýta þá til að innleiða úrbætur í geðheilbrigðiskerfinu.

„Þar vinna miklar hetjur við erfiðar aðstæður, en meira um það síðar,“ skrifar Gunnar Hrafn.

Auglýsing

læk

Instagram