today-is-a-good-day

Þorbjörn Þórðarson svarar gagnrýni á viðtal við bankamenn á Kvíabryggju

Viðtal Þorbjörns Þórðarsonar við Ólaf Ólafsson, Magnús Guðmundsson og Sigurð Einarsson á Kvíabryggju á Stöð 2 í gær vakti mikla athygli. Á samfélagsmiðlum hefur Stöð 2 verið gagnrýnt og Þorbjörn Þórðarson fréttamaður verið sagður fara silkihönskum um þá félaga.

Þorbjörn segir að menn þurfi ekki að velkjast í vafa í eina sekúndu um að hann hafi aðeins hagsmuni lesenda og áhorfenda að leiðarljósi í störfum sínum.

Tilefni viðtalsins var kvörtun Ólafs, Magnúsar og Sigurðar til umboðsmanns Alþingis þar sem þeim fannst fangelsismálastjóri hafa gengið of langt með ummælum í fjölmiðlum um ýmsar kröfur fanga á Kvíabryggju. Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir formlegum skýringum frá Páli Winkel vegna kvörtunarinnar.

„Fólki er frjálst að hafa sína skoðun. Ég er búinn að vera það lengi í þessum bransa að gagnrýni hefur lítil sem engin áhrif á mig. Þeir sem hafa trú á hæfileikum sínum eltast ekki við skítkast,“ segir Þorbjörn í samtali við Nútímann.

Ég held að þeir sem fylgjast vel með fjölmiðlum viti nákvæmlega hvað ég get og fyrir hvað ég stend fyrir í minni blaða- og fréttamennsku. Menn þurfa ekki að velkjast í vafa í eina sekúndu um að ég hef aðeins hagsmuni lesenda og áhorfenda að leiðarljósi í mínum störfum.

Þorbjörn segist hafa fengið nær eingöngu jákvæð viðbrögð við viðtalinu í tölvupósti, á Facebook og Twitter.

„Sú litla gagnrýni sem ég hef séð er ekki málefnaleg og eiginlega bara frekar fyndin á köflum!“ segir hann.

„Tilgangur viðtalsins var ekki að ræða dóminn í Al-Thani málinu eða tjón almennings af falli Kaupþings banka. Tilgangur viðtalsins var kvörtun Kaupþingsmanna, bréf umboðsmanns Alþingis til forstjóra Fangelsismálastofnunar og að varpa kastljósi inn í fangelsið á Kvíabryggju. Þetta var „human interest“ viðtal. Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp sinn dóm, sá dómur stendur og þessir menn eru í fangelsi.“

Þorbjörn vill halda því til haga að hann var vitni ákæruvaldsins í Al-Thani málinu og gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna frétta sem hann skrifaði sem blaðamaður Morgunblaðsins þegar fyrst var tilkynnt um Al-Thani viðskiptin í september 2008.

„Ég, eins og allir aðrir, taldi að sjeikinn hefði staðið einn og óstuddur að þessum viðskiptum og komið með nýtt fjármagn inn í Kaupþing banka,“ segir hann.

„Þeir sem hafa fylgst með fjölmiðlum gegnum hrunið vita mætavel að ég hef ekki tekið þetta bankahrun, og þá sem voru í fremstu víglínu þess, neinum silkihönskum. Það eru hins vegar liðin tæp 8 ár frá banka- og gjaldeyrishruninu. Margir bankamenn eru í fangelsi eða á leiðinni í fangelsi og það er kominn tími til að horfa fram á veginn.“

Auglýsing

læk

Instagram