Þrír ungir piltar reyndu að kveikja í Jólageit IKEA: „Fengu taugaáfall þegar þeir sáu gæslubílinn“

Þrír ungir piltar nálguðust Jólageit IKEA í desember og virtust ætla að kveikja í henni. Þeir lögðu á flótta þegar þeir sáu öryggisvörð verslunarinnar. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Sjá einnig: Tveir öryggisverðir í bíl vakta jólageitina við IKEA allar nætur: „Alltaf. Alla nóttina“

Jólageitin hefur verið látin í friði um jólin ólíkt í fyrra þegar hún var brennd í nóvember. Það vakti mikla athygli enda birtu fjölmiðlar myndband úr öryggismyndavél af geitinni á meðan hún brann til kaldra kola. Í júní á þessu ári voru brennuvargarnir, tvær konur og einn karlmaður, dæmd fyrir verknaðinn og þurfti hvert þeirra að greiða 150 þúsund krónur í sekt sem rann beint til ríkissjóðs.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, staðfestir á RÚV að reynt hafi verið að kveikja í geitinni í ár. „Já, það er búið að reyna að kveikja í henni – við náðum að stoppa það,“ segir Þórarinn í samtali við RÚV.

Þetta voru ungir strákar. Þeir voru þrír að læðupokast í átt að bílnum og fengu svo taugaáfall þegar þeir sáu gæslubílinn.

Þórarinn segir á vef RÚV að ungu mennirnir þrír séu ekki þeir einu sem IKEA hefur haft afskipti af. Dularfullur maður í svörtum Cherokee-jeppa hefur einnig ítrekað lagt við bensínstöð Costco um miðja nótt og dvalið þar í margar klukkustundir.

Eins og Nútíminn greindi frá í nóvember þá er jólageitin vöktuð af tveimur öryggisvörðum í bíl allar nætur. Saga geitarinnar er þyrnum stráð. Fyrsta geitin var sett upp árið 2010 en hún varð brennuvörgum að bráð aðfaranótt Þorláksmessu. Ári síðar fauk geitin um koll en var svo reist við og stóð fram yfir jól. Sannkallað jólakraftaverk!

Geitin var svo aftur brennd árið 2012 en IKEA gafst ekki upp og setti upp nýja fyrir jól. Árið 2013 var sett upp rafmagnsgirðing til að reyna að hefta för brennuvarga en þá gripu veðurguðirnir aftur til sinna ráða og fauk hún um koll í miklu roki. Að sjálfsögðu var hún reist við á ný.

Árið 2014 fékk hún að standa óáreitt á einhvern ótrúlegan hátt en ári síðar kviknaði í henni út frá jólaseríu. Hún var svo enn og aftur brennd í fyrra en frægt var að snör viðbrögð öryggisvarðar urðu til þess að brennuvargarnir náðust. Hann elti brennuvargana frá Kauptúni og í Grímsbæ, þar sem lögregla náði þeim.

Auglýsing

læk

Instagram