Tilboðsþyrstir ferðalangar stífluðu vef Wow

Wow Air kynnti flugáætlun sína fyrir árið 2015 í dag með tilboðum á flugferðum. 2.015 sæti voru boðin á 2.015 krónur, ásamt sköttum, og hófust bókanir á hádegi.

Gríðarleg ásókn var í flugferðirnar og færri komust að en vildu þar sem vefurinn réði illa við fjöldann. Wow nýtti Facebook til að koma skilaboðum áleiðis til fólks sem var missátt við biðina:

Tilboðið okkar góða er gríðarlega vinsælt og margir sem vilja ná í þetta kostaboð. Álagið er mikið á heimasíðunni okkar á þessari stundu og því miður kemst ekki allur fjöldinn að í bókunarvélinni á sama tíma. Því gildir að halda áfram að reyna eða að reyna aftur seinna í dag. Við þökkum þolinmæðina.

Fólk brást misvel við því að komast ekki að í bókunarkerfinu og létu margir í ljós óánægju sína á Facebook-síðu Wow.

Hér má sjá fjöruga umræðu þar sem fólk segir meðal annars frá langri bið, spyr hvort miðarnir séu búnir og veltir fyrir sér hvers vegna ferðir til Alicante séu ekki á tilboði. Á meðan kepptist Wow við að svara fólkinu.

Auglýsing

læk

Instagram