Tugir fíkniefnamála á Secret Solstice í nótt

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nótt afskipti af um þrjátíu einstaklingum vegna vörslu fíkniefna á Secret Solstice hátíðinni í gærkvöldi og í nótt. Þetta er svipaður fjöldi og lögreglan hafði afskipti af á hátíðinni á föstudagskvöld.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en Björn Teitsson, fjölmiðlafulltrúi Secret Solstice, sagði í samtali við Vísi í gær að honum finndist ólíklegt að fólkið væri að neyta fíkniefnanna á svæðinu sjálfu þar sem að öryggisgæslan væri mikil.

Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að nokkur mál sem tengjast ölvun og ofbeldi komið upp. Ölvuð kona var handtekinn fyrir að slá lögreglumann og talsverður fjöldi ökumanna var stöðvaður fyrir ölvunar- eða fíkniefnaakstur.

Í gær bárust einnig fréttir af því að einstaklingar undir lögaldri væru að kaupa sér áfengi á svæðinu.

„Fréttir af því að fólk undir lögaldri sé að kaupa áfengi á svæðinu standast held ég illa en að því sögðu þá getum við auðvitað ekki fylgst með því sem gerist fyrir utan hátíðarsvæðið. Mér þótti leiðinlegt að heyra þetta úr dagbók lögreglu í morgun en ég held að það sé bara örfáir einstaklingar af mjög stórum hópi gesta sem er að skemmta sér mjög vel og fallega,“ segir Björn í samtali við Vísi.

Í tilkynningu frá Secret Solstice segir að ítrekað hafi verið fyrir starfsmönnum hátíðarinnar að fá hátíðargesti til þess að sýna skilríki við inngöngu. Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér að neðan.

Yfirlýsing frá tónlistarhátíðinni Secret Solstice

Vegna frétta um áfengiskaup hátíðargesta sem hafa ekki náð 20 ára aldri. 

Mjög mikilvægt er að fjölmiðlar séu meðvitaðir um að skipuleggjendur hátíðarinnar hafa lagt mikla vinnu við að bjóða upp á rafrænt miðasölukerfi til að koma í veg fyrir að fólk sem hafi ekki aldur til geti keypt áfengi á tónleikasvæðinu. Einnig auðveldar rafrænt kerfi við að passa að allir hátíðargestir hafi náð 18 ára lögaldri, þeir sem yngri eru verða að vera í fylgd með forráðamönnum. 

Föstudaginn 22. júní bárust fréttir af því að fólk sem hafði ekki náð áfengiskaupaaldri væri samt sem áður að kaupa áfengi, þar sem það hafði orðið sér úti um armbönd sem eru merkt 20+ til að staðfesta að viðkomandi hafi náð tilskyldum aldri. Slíkum fréttum taka skipuleggjendur mjög alvarlega enda á starfsfólk hátíðarinnar við aðalinngang tónleikasvæðisins, sem og allt fólk sem starfar við veitingasölu, að fá alla hátíðargesti til að sýna skilríki til að sanna aldur sinn. 

Hafa þau fyrirmæli verið ítrekuð til starfsfólks. Lögreglan hefur einnig verið með stöðuga viðveru og er hún meðvituð um þessa tilhögun og fylgist með að allt fari rétt fram. Sömuleiðis starfar hátíðin með starfsfólki frístundamiðstöðva Reykjavíkurborgar sem ganga um tónleikasvæðið til að ganga úr skugga um að allt fari sem best fram. Unnið er að því á hverju ári að bæta aðstæður fyrir hátíðargesti til að gera upplifun þeirra sem besta og sem jákvæðasta. Skipuleggjendum er mikið kappsmál að hátíðin fari sem best fram, hér eftir sem hingað til og það hefur hún gert í ár – þar sem fólk hefur notið tónlistar og samvistar í fallegu samfélagi í miðri Reykjavíkurborg.

Á svæðinu eru hátt í 5000 hátíðargestir sem koma erlendis frá og hafa þeir talað einstaklega vel um hátíðina og skemmt sér konunglega. Það sama má segja um listamenn hátíðarinnar, innlenda sem erlenda, sem hafa lýst yfir mikilli ánægju með allt skipulag og fyrirkomulag Secret Solstice, og bera landinu okkar jafnframt einstaklega góða söguna. Á svæðinu verða líklega um 15 þúsund hátíðargestir í kvöld, laugardag, og erum við sannfærð um að tónlist, skemmtun og jákvæðni verði í fyrirrúmi. 

Auglýsing

læk

Instagram