Útvarp Saga spyr hvort fólk treysti Bubba Morthens

Útvarp Saga spyr í nýjustu könnuninni á vefsíðu sinni hvort fólk treysti Bubba Morthens. Könnunin kemur í kjölfarið á því að Bubbi bannaði útvarpsstöðinni að spila lögin sín eftir að hún kannaði hvort fólk treysti múslimum.

Bubbi fetaði þannig í fótspor Ljótu hálfvitanna sem hafa einnig bannað útvarpsstöðinni að spila lögin sín. Þegar þetta er skrifað er hálftími síðan könnunin var sett í gang og 48 hafa greitt atkvæði.

Svo virðist sem meirihluti hlustenda Útvarps Sögu treysti ekki Bubba en 36 svara spurningunni neitandi, 10 segjast treysta Bubba á meðan tveir eru hlutlausir. Könnuninni lýkur á mánudag.

Bubbi fór formlega fram á það við STEF að Útvarpi Sögu væri óheimilt að spila tónlistina hans og það staðfesti Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF, á Eyjunni.

Samningar sem STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, gerir við útvarpsstöðvar gera ráð fyrir að þeim sé heimilt að spila hvaða efni sem er. Í samningunum er hins vegar settur fyrirvari þess efnis að einstakir höfundar geti lagt bann við því að tónlist þeirra sé flutt hjá ákveðnum útvarpsstöðvum.

Sjá einnig: Ljótu hálfvitarnir banna Útvarpi Sögu að spila lögin sín, múslimakönnun gerði útslagið

Bubbi sagði á Facebook-síðu sinni á dögunum að bannið ætti að gilda „svo lengi sem Útvarp Saga heldur áfram að ala á fordómum og mannhatri. Skömm þeirra og heimska er algjör,“ sagði hann.

Það er ömurlegt að vita til þess að fullorðið fólk sem hefur alist upp í kærleika, býst ég við, skuli þrífast í þeim andlega skugga sem liggur yfir hljóðstofu útvarpsins sögu.

Eins og Ljótu hálfvitarnir þá bannað Bubbi útvarpsstöðinni að spila lög sem hann hefur þegar gefið út, sem og þau sem hann hljóðritar í framtíðinni.

Auglýsing

læk

Instagram