Floyd Mayweather boxar við karla en lemur konur

Boxarinn Floyd Mayweather og bardagakappinn Conor McGregor mætast í boxbardaga í Las Vegas á laugardaginn. Bardaginn er einn stærsti íþróttaviðburður allra tíma og er beðið með gríðarlegri eftirvæntingu.

Kynningin á bardaganum hefur verið sérstök. Fjórir fjölmennir blaðamannafundir í fjórum borgum fóru fram á dögunum og virtust þeir haldnir gagngert svo að þeir félagar gætu látið svívirðingarnar dynja á hvor öðrum. Fundirnir voru í senn kjánalegir og sprenghlægilegir. Í fyrstu virtist allt leyfilegt á fundunum en Conor skautaði þó fimlega framhjá því að Floyd, einn besti boxari allra tíma, hefur margoft verið dæmdur fyrir ofbeldi gegn konum.

Í desember árið 2011 var Floyd dæmdur í 90 daga fangelsi fyrir að ráðast á Josie Harris, barnsmóður sína, fyrir framan syni þeirra. Hann játaði minniháttar líkamsárás en lögregluskýrslan frá þessu kvöldi í september árið 2010 bendir til þess að um mjög alvarlega árás var að ræða. Josie Harris, sem á þrjú börn með Floyd, segir að hann hafi byrjað að lemja sig eftir að hún viðurkenndi að hún ætti í ástarsambandi við annan mann.

Hann lamdi hana í hnakkann, reif í hár hennar og sagðist ætla að drepa hana og manninn sem hún var að hitta. Sonur þeirra varð vitni að árásinni og lét vin móður sinnar vita sem hringdi á lögregluna. Sonur þeirra lýsir árásinni í lögregluskýrslu sem er aðgengileg hér og sýnir hverskonar hræðilegar barsmíðar áttu sér stað.

Á fimm mánaða tímabili á árunum 2001 til 2002 var Floyd tvisvar ákærður fyrir heimilisofbeldi gegn Josie Harris. Hann játaði brot sín og var dæmdur til að gegna samfélagsþjónustu í 48 klukkustundir og tveggja daga stofufangelsi. Josie kærði Floyd síðar fyrir að skella bílhurð á sig, ýta sér inn í bíl og láta höggin dynja á sér. Kærunni var vísað frá árið 2003.

Floyd var handtekinn árið 2003 og ákærður fyrir að ráðast á tvær konur í næturklúbbi í Las Vegas. Hann var dæmdur og gert að gegna samfélagsþjónustu í 100 klukkustundir. AP fréttastofan greindi á sínum tíma frá því að önnur konan hafi sagt Floyd hafa kýlt sig í andlitið og kýlt vinkonu sína þegar hún reyndi að rétta sér hjálparhönd.

Floyd var spurður út í einn af þessum dómum á blaðamannafundi árið 2002 fyrir bardaga gegn Jose Luis Castillo. „Allir sem þekkja Floyd Mayweather vita að ég er góður gaur,“ sagði hann. „Ég hef aldrei farið í fangelsi.“

Floyd hefur miklu oftar verið sakaður um heimilisofbeldi án þess að vera ákærður og dæmdur. Samkvæmt umfjöllun vefmiðilsins Deadspin hefur hann sjö sinnum verið sakaður um ofbeldi gegn konum á síðustu árum. Þrátt fyrir að hafa verið dæmdur oftar en einu sinni eftir að hafa játað brot sín þá sagðist Floyd í viðtali árið 2011 ekki lemja konur.

Í viðtali árið 2013 lýsti Josie Harris áverkum sínum. „Lamdi hann mig í klessu? Nei en ég fékk marbletti og heilahristing vegna þess að hann lamdi mig í hnakkann,“ sagði hún. Þetta staðfestir lögregluskýrsla.

Hún sagðist hafa skammast sín og fundið fyrir mikilli skömm. „Mér leið eins og þetta væri mér að kenna — hvað gerði ég rangt? En ég veit núna að ég var í mjög óheilbrigðu og ofbeldisfullu sambandi og brotaþoli heimilisofbeldis.“

Auglýsing

læk

Instagram