Guðmundur varar aðra foreldra við gylliboðum þessara manna – „Sem faðir hryggir það mig að hafa leyft þessum mönnum að ávinna sér traust sonar míns“

Hann Guðmundur Þór Kárason skrifaði opnu Facebook færsluna hér fyrir neðan þar sem að hann varar aðra foreldra við gylliboðum og loforðum manna sem hann sér eftir því að treysta.

Hann skilur ekki svona vinnubrögð og vonar að enginn þurfi að lenda aftur í því sem kom fyrir son hans:


14 ára sonur minn vann kauplaust í 6 mánuði fyrir þessa kvikmyndagerðarmenn.

Aðstandendur Kvikmyndarinnar Hjartasteinn eru með nýja mynd í smíðum og í lok árs 2019 héldu þeir áheyrnarprufur fyrir aðalhlutverkin í myndinni. Aðalhlutverkin eru öll í höndum barna og eftir langar og stranga prufur hreppti sonur minn aðalhlutverkið.

Þá upphófst langt æfingatimabil, oft mörgum sinnum í viku, margar klukkustundir í senn. Þetta voru ekki bara æfingar fyrir myndina heldur einnig leiklistaræfingar, líkamsrækt, slagsmálaæfingar, breytt mataræði og fleira.

Eftir þrotlausa vinnu sonar míns fyrir þá Guðmund Arnar leikstjóra og Anton Mána framleiðanda myndarinnar í hálft ár fengum við símtal í gær þar sem okkur var tjáð að leikstjórinn hefði hætt við að láta son minn leika hlutverkið.

Ég hef aldrei kynnst svona vinnubrögðum og þykir undarlegt að menn sem sérhæfa sig í gerð mynda um börn skuli koma svona fram við barn. Sem faðir hryggir það mig að hafa leyft þessum mönnum að ávinna sér traust sonar míns og glepja hann með tali um frægð og frama þar sem öllu fögru var lofað. Það átti að ferðast um heiminn með myndina á kvikmyndahátíðr, gista á lúxushótelum og leikarar úr Hjartasteini voru fengnir til að koma og segja syni mínum hvað það hefði verið frábært tækifæri fyrir þá að vinna í svona verkefni.

Hvernig fullorðnir menn geta komið svona fram við óharðnaðan ungling er eitthvað sem er ekki hægt að skilja. Veröld drengsins og væntingar hrundu við þessar fréttir, eftir að hann hafði ekki hugsað um annað en þetta verkefni í 6 mánuði. Að horfa upp á barnið sitt mæta svona framkomu frá fullorðnum mönnum út í bæ sem hafa áunnið sér traust hans er ógeðfellt.

Þessir menn eru íslenskri kvikmyndagerð til háborinnar skammar og ég vil vara aðra foreldra við gylliboðum þeirra og loforðum.

Auglýsing

læk

Instagram