Sagan af Sigurbirni er EKKI fyrir viðkvæma – bara þá sem elska að hlæja!

Sigurbjörn Daði Dagbjartsson birti átakanlega fyndna lífsreynslu á vefnum Grindavik.net – en hana má lesa hér að neðan – og er hún alveg bráðfyndinn!
VARÚÐ! Áður en lengra skal haldið þá ert þú lesandi góður, hér með varaður við þessari lesningu. Ef þú ert hneykslunargjarn, viðkvæmur eða hvað þá klígjugarn, þá skaltu hætta lestrinum núna.

Eitt sinn var ég á Akureyri og átti pantað flug um kvöld til Reykjavíkur. Sökum ófærðar var flugið fellt niður og nýtt sett á morguninn eftir – með Twin Otter flugfél eins og Flugfélag Íslands var líka með í þá daga. Tekið skal fram að Twin Otter er 19 sæta flugvél, EKKI MEÐ NEINU KLÓSETTI…..

Flugið var 7:30 og ég mætti um 7 og beið í biðsalnum. Svo eru farþegar kallaðir út í vél á tilsettum tíma og ég stend upp en fæ þá alveg svakalegan sting í magann! Ég horfði á eftir farþegunum út og einhverra hluta vegna datt mér ekki í hug að segja afgreiðslukonunni að ég yrði að fara á klósettið áður en haldið yrði af stað, ég sá einfaldlega fyrir mér að þetta myndi líða hjá………..

Jæja, flugtakið tókst vel og fljótlega tilkynnt um flugtímann sem var rúm klst á móti 45 mínútum á Fokker en Fokker ER MEÐ KLÓSETT….. Ég sat á fremsta bekk í vélinni og var vélin full ef ég man rétt.

Eftir ca 20 mínútur fæ ég aðra pílu í magann og mátti hafa mig allan við í rúma mínútu að drulla ekki í buxurnar!! Ég fann kaldan svitann spretta af enninu á mér yfir tilhugsuninni um þetta slys í háloftunum og flugferðin ekki hálfnuð!! Jæja, ég rétt náði að halda þessu í mér og leit á klukkuna og sá mér til mikillar hrellingar að ennþá voru ca 45 mínútur eftir af fluginu!!!! Ég ákvað að reyna hugsa ekki neitt um þetta og fór að reyna dreifa huganum, las öryggisleiðbeiningarnar t.d. og annað hrútleiðinlegt lesefni í vasanum fyrir framan mig….

Eftir aðrar ca 20 mínútur þá fékk ég aftur pílu og mátti ég teygja úr mér öllum í miklum rembingi við að halda gumsinu áfram innandyra!! Úff…. ég fæ nánast kaldan svita þegar ég hugsa um þessi hugsanlegu örlög sem þarna biðu mín! Aftur náði ég rétt svo að halda þessu í mér og bað bænirnar þess efnis að komast á klósettið í tæka tíð! Ég sá Reykjavík nálgast, sá ljósið í endanum á göngunum. Vélin lenti og allt virtist ætla fara vel en um leið og ég stóð upp þá kom enn eitt skotið og nú voru góð ráð dýr!! Ég ruddist fram fyrir alla inn í vélinni og einhverra hluta vegna ríghélt ég um afturendann á mér á meðan ég hljóp inn í flugstöðina (hvað átti höndin að gera ef baráttan myndi tapast???)

Ég þekkti eina af afgreiðslukonunum á flugstöðinni og því miður þá tók hún eftir mér þegar ég kom á öðru hundraðinu á leið minni á dolluna. Hún kallaði: „hæ Sibbi“ og ég rétt náði að segja eitthvað á þessa leið: „ég verð að flýta mér á klósettið!!“ Sjaldan eða aldrei hef ég verið eins fljótur að girða niður um mig og Drottinn minn dýri hversu ljúft var að setjast á dolluna í tæka tíð! Ég hefði ekki viljað vera næstur á eftir mér inn á þetta klósett……….

Nokkrum árum seinna eldaði ég kvöldmatinn heima hjá mér og var boðið upp á gamaldags kótilettur í raspi (ástæða þess að ég nefni þetta er að kannski tengist þetta endalokum sögunnar). Ég hafði planað golf eftir kvöldmatinn með Almari Þór Sveinssyni vini mínum en hann rann úr skaftinu svo Arnar nokkur Ólafsson (stundum kallaður Arnar STÓRI til aðgreiningar frá öðrum meistara sem ber sama nafn) hljóp í skarðið fyrir Almar.
Golfvöllurinn í Grindavík var 13 holur á þessum tíma og byrjað að spila bakkana svokölluðu. Þegar við vorum búnir með upphafshöggin á 6. holu sem liggur með fram golfskálanum þá fékk ég „flashback“ síðan í flugvélinni forðum því ég fékk netta pílu í magann….. Ekki var nú vitið meira en það að ég hugsaði með mér að þegar þetta væri liðið hjá, að frábært yrði að klára þessa skák á heimavellinum með gott blað í hönd að loknum golfhringnum….. Þegar við vorum komnir eins langt frá skálanum og hugsast gat þá fékk ég annað skot, nokkuð verra en það fyrsta. Ekki hafði ég nú samt miklar áhyggjur, sá bara dolluna heima í hyllingum.

Þegar við slóum upphafshöggin á næstsíðustu holunni þá var ég með mitt högg nálægt golfskálanum. Ég sló inn á grín og var í bullandi birdie-séns svo því sé haldið til haga…. Fékk þá enn eina píluna og nokkuð verri en þær tvær fyrri. Ég hugsaði með mér að ég myndi líklega ekki meika það heim svo ég myndi klára þetta dæmi í skálanum að lokinni einni holu í viðbót. Þegar ég var við það að reka birdie-púttið niður þá kom væntanlegt náðarhögg og ég sá að þetta mætti ekki bíða lengur! Sagði Arnari að ég yrði að drífa mig og hljóp af stað og aftur hélt ég um afturendann….. Fann fljótlega að það voru of mikil átök að hlaupa svo ég hægði ferðina og hélt fastar um afturendann.

Þegar ég átti eftir ca 20 metra í golfskálann þá fann ég nánast jarðskjálfta þegar mekkanóið gaf sig og sprenging varð í kvartbuxunum mínum! Í köldu svitabaðinu var hugsunin engin og ég ákvað að drífa mig samt inn á klósett og eftir mikinn hamagang við að koma buxunum niður um mig og setjast á dolluna, þá kom EKKI EINN DROPI Í VIÐBÓT OFAN Í KLÓSETTIÐ!!! Ég hafði klárað mig gersamlega í buxurnar! Útgangurinn var svakalegur en það sem kom úr mér líktist meira flugvélabensíni en kúk og hafði mikið lekið úr buxunum og náði taumurinn alla leið frá klósettinu og út! Í þessari skelfilegu stöðu tókst mér samt að koma auga á einn ljósan punkt í tilverunni og hugsaði með mér: „Sem betur fer skeði þetta ekki í flugvélinni forðum……“

Jæja, nú voru góð ráð dýr, ég byrjaði á að fara úr kvartbuxunum og naríunum og sturta því sem var eftir í þeim brókum ofan í klósettið. Þetta var svipað og að hella úr fötu. Hófust svo hreinsunaraðgerðir og Guð minn góður hve lyktin var skelfileg!!

Eftir ca 10 mínútur í þrifum mundi ég allt í einu eftir Arnari vini mínum þar sem hann beið á síðasta teignum og var væntanlega farið að gruna að ekki hefði þetta fengið farsælan endi hjá mér. Ég varð auðvitað að fara út og láta hann vita að leik væri lokið hjá mér. Ekki gerði ég nú beint ráð fyrir þessum ósköpum og var ekki með föt til skiptanna og þar sem ég var ekki tilbúinn að labba út á völl á sprellanum varð ég að gjöra svo vel að fara aftur í blessaðar kvartbuxurnar…… Það voru ansi erfið og þung spor en ég komst í buxurnar við illan leik og labbaði út fyrir skálann og kallaði á Arnar og sagði honum að koma með settið mitt með sér. Hélt svo áfram að hreinsa upp eftir mig skítinn og man ég eins og hafi gerst í gær þegar Arnar mætti á vettvang til að rétta hjálparhönd, honum fannst lyktin líka frekar slæm!

Eftir að hreinsun var lokið stóðum við fyrir utan golfskálann og verður að viðurkennast að stemningin var hálf vandræðaleg. Ég kom keyrandi á jeppa sem ég átti en það voru leðursæti í honum. Eðli málsins samkvæmt gat ég ekki sest undir stýri og sagði Arnari að hann þyrfti að keyra. Við fundum pappa og settum í farangursrýmið og þangað mátti ég setjast eins og hundur á fjórum fótum á meðan við keyrðum heim. Stemmarinn nett vandræðalegur og til að brjóta þögnina sagði Arnar að maður ætti bara að fara strax á klósettið þegar manni væri mál, ég gat ekki annað en tekið undir það…… Ég verð alltaf bílveikur ef ég horfi ekki út um gluggann svo ég horfði út um afturgluggann alla leiðina heim – þar til við komum inn á Grindavíkurveginn. Bíll nálgaðist okkur óðfluga og þar sem ég var hræddur um að ökuþórinn myndi þekkja mig ákvað ég að beygja mig frekar niður og taka bílveikina en láta sjá mig í þessari stöðu!

Við komum heim og skiptumst á vandræðalegum kveðjum og Arnar labbaði heim til sín eftir að hann kom með þetta stórkostalega comment: „Sibbi, shit happens“. Ég labbaði inn í bílskúrinn og kallaði á mína fyrrverandi og sagðist hafa lent í smá óhappi. Hún spurði hvort ég hefði verið tekinn af löggunni en ég benti niður á buxurnar og sagði henni frá óförum mínum og glotti….. Hún trúði ekki eigin augum en sagði mér svo að þegja yfir þessu, hún vildi ekki vera kölluð kúkurinn eða eitthvað álíka….. Ég sendi sms á Arnar og sagði honum að við skyldum bara halda þessu okkar á milli til að byrja með.

Svo fórum við X í heimsókn til fyrrnefnds Almars sem hafði ætlað með mér í golf. Við vorum varla sest þegar Almar spurði hvernig hefði gengið í golfinu. X glotti nokk og ég var frekar vandræðalegur. Stamaði eitthvað út úr mér og X var við það að springa og Almar skyldi ekki neitt í neinu. Ég sagði honum að ég hefði verið ágætur á bökkunum en uppi hefði þetta, hefði þetta verið hálf…. X hló ennþá meira og ég reyndi að klára setninguna þar til Almar greip fram í fyrir mér og sagði: „já þú hefur bara skitið á þig uppi??“ Ég gafst upp á þagmælskunni, barði í borðið og sagði: „Já, það má eiginlega segja það!“
Mér sýndust nokkur líffæri losna í Almari vegna hláturs þegar ég sagði honum alla þessa sólarsögu og var hámarki náð þegar Arnar vinur okkar fléttaðist inn í söguna til að hjálpa til við þrifin! Almar hreinlega lamdi í eldhúsborðið sitt og öskraði úr hlátri!!
Arnar er traustur eins og eik og þrætir enn þann dag í dag fyrir að þetta hafi í raun gerst

Ps.
Ef þú þessi viðkvæmi/klígjugarni last áfram og ert hneykslaður/hneyksluð, þá er eingöngu við þig sjálfan/sjálfa að sakast því ég varaði þig við! Ég hef sagt þessa sögu í ófá skiptin og gæti trúað að nýtingin sé ca 90% á frábærum viðbrögðum með gífurlegum hlátri! En stundum hef ég ekki „lesið salinn rétt“ og lent í því að vandræðaleg þögn myndist og augum ranghvolft af hneykslun…… Það má spyrja sig hver tilgangurinn með svona skrifum sé og er svar mitt við þeirri spurningu nokkuð einfalt, ef þetta fær einhverja til að brosa og jafnvel hlægja, þá er tilganginum náð. Fyrir hina sem hneykslast á mér og valda mér hiksta með baktali, þá er ég með breytt bak og gæti hreinlega ekki verið meira sama hvað ykkur finnst um þessi skrif. Guð er til vitnis um að ég lék mér ekki að því að missa það í buxurnar, þetta var slys og ef maður hefur húmor fyrir sjálfum sér, þá er lífið skemmtilegra

Auglýsing

læk

Instagram