Gagnrýnir ummæli Hildar Þórðardóttur á RÚV: „Fólk eins og þú er hreinlega hættulegt“

Ummæli Hildar Þórðardóttur forsetaframbjóðanda um óhefðbundnar lækningar í umræðum frambjóðenda á RÚV á föstudagskvöld vöktu talsverða athygli. Hildur gagnrýndi meðal annars að konur með stökkbreytingu í BRCA-geni láti fjarlægja brjóst sín og setji sílíkon í staðinn.

Sjáðu ummæli Hildar í spilaranum hér fyrir ofan.

Bjarney Bjarnadóttir birtir opið bréf til Hildar á Facebook-síðu sinni en hún er BRCA arberi. Hún segir það ekki kom Hildi né öðrum við hvað hún og aðrar konur geri við brjóstin sín. „Og satt að segja finnst mér þetta furðulegur slagur að taka í forsetaframboði,“ segir hún.

Bjarney segir að Hildur hafi vakið athygli sína þegar hún gagnrýndi læknavísindin og það að konur létu fjarlægja brjóst sín af ótta við brjóstakrabbamein. „Þá vaktir þú sérstaka athygli mína, sennilega vegna þess að ég er BRCA arfberi,“ segir hún. „Á þeim tíma varstu líka nýbúin að vera í ástarsorg útaf manni sem þú misstir í fyrra lífi.“

Hún segist hafa hlegið í fyrstu. „En eftir því sem rödd þín fær að hljóma oftar, þeim mun minna umburðarlyndi hef ég fyrir þessum skoðunum þínum,“ segir Bjarney.

Þú segir að brjóstin séu heilbrigður líkamspartur þó að BRCA genið sé til staðar og algjörlega ástæðulaust að fjarlægja þau. Brjóstin á mömmu, ömmu og öllum frænkum mínum sem hafa látist úr brjóstakrabbameini, voru auðvitað alheilbrigð, alveg þar til þau fengu krabbamein.

Bjarney segist viss um að Hildur meini vel. „En mitt ráð til þín er að halda áfram að gera það sem þú gerir best sem þjóðfræðingur, og leyfðu læknunum að gera það sem þeir gera best, þeir eru allavega með rannsóknir á bakvið sig,“ segir hún.

„Fólk eins og þú er hreinlega hættulegt (spurðu bara Steve Jobs). Sem betur fer virðist þú ekki hafa mikið fylgi en bara það ef ein kona týnir lífi sínu af því að hún ákveður að prófa heilun í staðinn fyrir hefðbundin læknavísindi vegna þín, þá er skaðinn af þessu framboði þínu orðinn óbætanlegur.

Fyrir utan það, þá kemur hvorki þér né öðrum það við hvað ég, og aðrar konur, gerum við brjóstin á okkur, og satt að segja finnst mér þetta furðulegur slagur að taka í forsetaframboði.“

Auglýsing

læk

Instagram