Sjáðu brot úr heimildarmynd um Sunnu: „Ég elska að berjast — það gefur mér tilgang“

Bardagakonan Sunna Davíðsdóttir mætir Ashley Greenway í Kansas City í Bandaríkjunum á föstudaginn. Þetta er fyrsti atvinnubardagi Sunnu en hún er fyrsta íslenska konan sem gerist atvinnumaður í MMA.

Nútíminn birtir hér brot úr heimildarmynd um Sunnu sem Snorri Barón og kvikmyndagerðarmaðurinn Allan Sigurðsson eru að vinna að. Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan. „Ég elska að berjast —það gefur mér tilgang,“ segir Sunna í myndinni.

Sjá einnig: Fyrsti atvinnubardagi Sunnu framundan: „Þetta er draumurinn minn og ég er að láta hann rætast“

Sunna gekk til liðs við Invicta Fighting Championships, sem er stórt bardagasamband í Bandaríkjunum, í apríl síðastliðnum. Hún varð þar með atvinnumaður í MMA, blönduðum bardagalistum, fyrst íslenskra kvenna.

Í myndinni eru viðtöl við Sunnu sem og hennar helstu þjálfara og æfingafélaga, þar á meðal Conor McGregor, Gunnar Nelson, John Kavanagh og ýmsa fleiri.

Snorri vinnur með Sunnu að því að koma henni á framfæri og segir í samtali við Nútímann að samstarfið gangi vel. „Okkur semur vel og það er mikið búið að áorkast,“ segir hann.

Ég sá mjög fljótt í ferlinu hversu einstök og áhugaverð manneskja hún er og fannst sem það yrði að festa þessi fyrstu skref hennar sem atvinnumaður á filmu.

Sunna er stödd úti í Kansas City og dagurinn í dag hefur að mestu farið í fjölmiðlafár, viðtöl, myndatökur og annað slíkt að sögn Snorra.

„Á morgun er svo vigtun. Þá hittir hún andstæðing sinn, Ashley „Dollface“ Greenway í fyrsta skipti og verða það sennilega engir fagnaðarfundir,“ segir hann.

„Á föstudag er svo bardaginn hennar. Bardaginn verður ekki sýndur í beinni útsendingu á hérlendum sjónvarpsstöðvum en hann verður hinsvegar í beinni útsendingu á UFC Fightpass, sem aðgengilegt er í öllum snjalltækjum, vöfrurum og í Apple TV.“

Auglýsing

læk

Instagram