Dularfulla hulduhringingin

Auglýsing

Ef þú ert eins og ég og ert nær undantekningarlaust með símann þinn á sama stað (vinstri vasinn á buxunum hjá mér) þá hefur þú sennilega upplifað það að þú finnir símann hringja þó hann sé ekki að því, jafnvel þó hann sé ekki einusinni í vasanum. Phantom vibration syndrome kallast þessi tilfinning og ætli ég upplifi hana ekki minnst einusinni í viku. Ekki nóg með það að tilfinninginn geri vart við sig í vinstra lærinu mínu af og til heldur gerist það á stöðum þar sem ég veit að ég er ekki með símann, t.d. í sturtu.

Merkilegt hvað heilinn getur leikið á mann. Rannsóknir benda til þess að þessi tilfinning tengist því hversu mikið við notum símann okkar. Þeir sem nota hann mikið eru því mun líklegri til þess að upplifa þennan draugagang heldur en þeir sem nota símana sína lítið. Rannsóknir dr. Robert Rosenberger hjá Georgia Institute of Technology hafa leitt það í ljós að þessi tilfinning er lærð hegðun. Ef manneskja skilur síma eftir (t.d. í vasa) í langan tíma verður hann „hluti af“ líkama viðkomandi, svipað og gleraugu.

Dr. Rosenberg telur kvillann stafa af því að við erum svo spennt og óþreyjufull að bíða eftir næstu skilaboðum, næsta tölvupósti eða hver sé að líka við Facebook statusinn okkar að við ímyndum okkar að hann sé að titra í vasanum með glæný og brakandi fersk skilaboð. Ekki er þó í öllum tilvikum um ímyndun að ræða því í einhverjum tilvikum er um að ræða minni háttar vöðvakrampa sem heilinn ákveður að túlka sem titring frá símanum.

Ef þú hélst eins og dr. Rosenberger, að þú værir ein(n) af þeim fáu sem upplifa hulduhringingar, þá getur þú huggað þig við það að það er í raun meirihluti þeirra sem eiga snjallsíma sem eru í sömu sporum.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram