Fjarlægðin gerir fjöllin blá

Ég var fimmtán ára þegar ég kom til LA í fyrsta sinn. Þá fórum við fjölskyldan í Disneyland í gulum regnslám því það var grenjandi rigning og keyrðum niður Avenue Of The Stars til að skoða Hollywood. Ekki grunaði mig þá að ég ætti eftir að búa ofar í þeirri götu tíu árum síðar.

Nú eru rúmlega fjögur ár síðan ég flutti ásamt stallsystrum mínum Klöru og Steinunni í The Charlies og hef meirihlutann af þeim tíma búið í lítilli íbúð á Hollywood Boulevard. Ég man vel hvernig mér leið þegar við vorum nýfluttar. Það var allt svo nýtt og spennandi. Gott veður alla daga, pálmatré, íkornar, Whole Foods, mýkingarefni í bréfformi, ruslakvörn í vaskinum og Starbucks kaffi daglega. Að versla í matinn var líka ævintýri útaf fyrir sig, endalaust úrval, allir starfsmenn heilsuðu svo viðkunnalega “Hey, how are you?” og röðuðu matnum ofan í poka fyrir mann. Þvílíkur lúxus!

Eins og gengur og gerist hvarf nýjabrumið með tímanum. Á sama tíma og hversdagsleikinn tók við fór ég að taka eftir öllum litlu hlutunum sem ég hafði ekki leitt hugann að fyrsta árið í nýrri borg. Endalaus umferð fór að reyna á þolinmæðina, hitinn í litlu óloftkældu íbúðinni okkar varð nánast óbærilegur á sumarnóttum og kakkalakkar létu sjá sig.

Heimþrá sem hafði ekki látið á sér kræla síðan ég flutti fór að gera vart við sig í vor. Þar sem ég hef yfirleitt farið heim um jól er ég ekki búin að upplifa íslenskt sumar síðastliðin fimm ár. Já, ég veit að það hafa verið fáir sólardagar síðastliðin tvö sumur á Íslandi, en það breytir því ekki að fjarlægðin gerir fjöllin blá og núna er ég búin að gleyma öllum stormviðvörunum, roki og rigningu. Ég sé bara sólsetrið í hyllingum og mig dreymir um íslenska kranavatnið, flatkökur og Nóa Kropp og ekki má gleyma fegurðinni sem fylgir íslensku ársíðaskiptunum sem eru lítil sem engin hér í LA.

Þrátt fyrir rómantíska dagdrauma um Ísland get ég ekki horft framhjá hversdagslegu hlutunum sem gera lífið gott hér í LA. Það er lúxus að þurfa aldrei að hugsa um veðurspána, geta skroppið niður á strönd fyrirvaralaust (og mega taka hægri beygju á rauðu ljósi!). Það er líka lúxus að geta verslað mat og áfengi á sama stað og hverskyns lífræna, ferska ávexti og grænmeti allt árið um kring, ekki bara á viðráðanlegu verði heldur góðu verði. Á meðan ég er þess aðnjótandi skal ég alveg sætta mig við að kaupa vatn í flöskum og mjakast áfram í umferðarteppum.

Auglýsing

læk

Instagram